Leikstjórinn Ágúst Guðmundsson hefur lengi verið að í þessum bransa og á margar af ástsælustu kvikmyndum landans. Má þar nefna Land og Synir, Með allt á hreinu og Mávahlátur. Nýjasta afurð leikstjórans er gamansama draugamyndin Ófeigur gengur aftur og verður hún frumsýnd þann 27. mars næstkomandi. Við ræddum við Ágúst um ferilinn, Ófeig, íslenska kvikmyndagerð og smekksatriði.
Hver er þín saga inn í kvikmyndagerð?
Þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík átti ég minn þátt í að setja á stofn kvikmyndaklúbb Listafélagsins, sem varð mikið fyrirtæki. Forsprakkinn var Þorsteinn Helgason, forseti Listafélagsins, en ég var næstráðandi í fyrirtækinu. Við sýndum ótrúlega mikið af klassíkinni alveg aftur í þöglu myndirnar, sýndum Dreyer í heilu lagi o.s.frv. Fyrir utan hans myndir er mér einkum minnisstæður Rashomon eftir Akira Kurosawa. Samhliða íslenskunámi í Háskólanum fór ég í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Að loknu námi þar bauðst mér stórt hlutverk í sjónvarpsleikriti, og í framhaldi af því fór ég að spá í kvikmyndaskóla. Ég sá auglýsingu frá The National Film School, Englandi, í tímaritinu Sight and Sound og sótti um.
Hver eru þín fyrstu verk?
Nýútskrifaður úr kvikmyndaskólanum gerði ég Litla þúfu, 50 mínútna mynd um 16 ára stúlku sem verður ólétt. Ári síðar gerði ég sjónvarpsleikrit, Skólaferð, sem vakti talsverða athygli. Þetta tvennt kom undir mig fótunum. Ég hitti Indriða G. Þorsteinsson, rithöfund, þegar við tókum báðir þátt í umræðuþætti í sjónvarpinu um framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar. Við vorum þeir bjartsýnustu í hópnum, og eftir upptökuna sagði ég honum að ég hefði áhuga á að kvikmynda skáldsögu hans Land og syni. Hann bauð mér í kaffi í Grillinu á Hótel Sögu daginn eftir, þangað kom líka Jón Hermannsson framleiðandi og saman mynduðum við þríeykið Ísfilm hf.
Hvernig varð ‘Ófeigur gengur aftur’ fyrst til?
Ég fékk hugmyndina fyrir bráðum tveimur áratugum, um látna gallagripinn sem snýr aftur úr gröfinni og sest upp hjá dóttur sinni og kærasta hennar. Þegar ég flutti inn í hús á Grettisgötunni fyrir 6 árum datt mér í hug að skrifa söguna inn í húsið, og fyrstu drögin að handritinu flutu fram nokkurn veginn áreynslulaust.
Hvernig myndir þú lýsa söguþræðinum?
Ófeigur, nýlátinn faðir Önnu Sólar, gengur aftur og fer að hlutast til um líf hennar og kærasta hennar, Inga Brjáns. Þau ætla að selja hús hins látna, en Ófeigur vill ekki að þau flytji. Afskiptasemi afturgöngunnar er slík að Ingi Brjánn ákveður að reyna að kveða drauginn niður með aðferðum sem hann finnur í gamalli galdrabók. En fæst Anna Sól til að kveða niður eigin föður? Undir þessu grínagtuga yfirborði dormar vitaskuld spurningin eilífa um líf eftir dauðann.
Hvernig gekk vinnan að myndinni?
Tökur gengu ótrúlega vel. Þessi mynd, sem er tæknilega talsvert flókin, var tekin upp á 21 degi. Til samanburðar má geta þess að við eyddum 40 dögum í að taka Mávahlátur. Almennt er ég talsvert gefinn fyrir góðan undirbúning, og þessi saga kallaði á sérstaklega nákvæmni í þeim efnum. Ég var tilbúinn með skotlista yfir öll atriði myndarinnar áður en ég átti fyrsta fund með Bergsteini tökumanni. Hann kom svo með sínar uppástungur og athugasemdir, sem voru undantekningarlaust skynsamlegar. Myndbrellurnar kölluðu líka á góðan undirbúning, og Jörundur Rafn, brellumeistari, var alltaf á staðnum þegar þau atriði voru í tökum. Leikaravinnan var bara hreinn unaður. Ég hitti leikarana nokkrum sinnum á æfingum til að fara yfir atriðin, og þá slípaðist eitt og annað og nýjar hugmyndir litu dagsins ljós.
Hvað tekur við núna?
Ég vil nefna þrjú verkefni: Tivi Magnusson, danskur framleiðandi, hefur hug á að gera með mér bíómynd sem gerist í seinni heimstyrjöldinni á Norð-Austur Grænlandi, langt ofan við venjulega mannabústaði. Hana þarf að taka að vori, og stefnt er á vorið 2014. Ást á heimsenda er vinnuheiti myndar sem gerist austur í Höfn í Hornafirði og greinir frá ástfanginni hjúkrunarkonu, sem flytur austur ásamt barni sínu. Berserkir er svo nafn á víkingakómedíu sem mig hefur langað að gera í aldarfjórðung, mynd sem gerist á Englandi á 10. öld.
Hvaða leikara dreymir þig að vinna með?
Í þessari mynd vann ég í fyrsta sinn með leikurum úr Vesturporti. Það var einstaklega gefandi, enda erum við farin að spá í næstu verkefni.
Kvikmyndagerð getur verið tímafrek vinna, hvað gerirðu þegar þú hefur frítíma?
Ég er bókamaður, svo hlusta ég talsvert á tónlist, mest djass. Ég spila svolítið á gítar, á það jafnvel til að semja lög. Tvö þeirra má finna í Ófeigi. Svo fer ég auðvitað reglulega í bíó, reyndar líka í leikhús. Er þetta ekki einmitt lýsing á latte-lepjandi listamanni í miðbænum?
Hver er þín uppáhalds kvikmynd?
Þessari spurningu hef ég aldrei getað svarað almennilega. Þær eru svo margar. Kannski þykir manni vænst um gölluðu snilldarverkin, eins og t.d. Ingenjör Andrées luftfärd eftir Jan Troell.
Hver er þinn uppáhalds leikstjóri?
Ég hef alltaf haft mætur á Froncois Truffaut, alveg frá því ég sá Jules et Jim í Bæjarbíói, 17 ára gamall. Ég kann vel við léttleikann og húmorinn í myndum hans, hann segir frá á myndrænan, einfaldan hátt, sem mér finnst til fyrirmyndar. Og hann er aldrei tilgerðarlegur.
Hversu mikilvæg er íslensk kvikmyndagerð fyrir land og þjóð?
Nú hefur komið fram með óyggjandi hætti að kvikmyndagerð á Íslandi er hagkvæm, beinlínis gróðadæmi fyrir ríkið. Það er samt ekki meginástæða þess að Íslendingar eigi að halda áfram að gera bíómyndir. Menningarlegu rökin eru miklu sterkari. Stöðug endursköpun á þessu sviði er þjóðinni beinlínis nauðsyn. Okkur vantar gott myndefni á móðurmálinu, bæði fyrir bíó og sjónvarp, ekki síst nú þegar ungt fólk er farið að sletta enskunni enn meira en dönskunni var slett á sínum tíma. Kvikmyndagerð á Íslandi á eftir að blómstra í framtíðinni.
Hvaða ráð myndirðu gefa ungum kvikmyndagerðarmönnum í dag?
Að vinna vel í handritinu. Lesa bækur um handritaskrif, vita hvað hefur hingað til virkað og hvað ekki.
Við þökkum Ágústi innilega fyrir spjallið og óskum honum velgengni með kvikmyndina sína og minnum á að Ófeigur gengur aftur er frumsýnd þann 27. mars og verður sýnd í Sambíóunum.