Við hjá Kvikmyndir.is tókum örsnöggt viðtal við Arnar Gunnarsson, tæknilegan framkvæmdastjóra (e.CG supervisor) hjá hreyfimyndagerðarfyrirtækinu Caoz, en Arnar er maðurinn á bakvið tæknilegu hlið myndarinnar Hetjur Valhallar: Þór, sem hefur heldur betur slegið í gegn á Íslandi síðan hún var frumsýnd.
Markmiðið með viðtalinu var að skyggnast aðeins á bakvið tjöldin og fá tilfinningu fyrir því hvernig tæknivinnsla svona stórrar myndar gengur fyrir sig.
Hvers konar tækjabúnað og mannskap þarf til þess að gera svona rosalega stóra mynd?
Að meðaltali unnu um 60 manns við myndina í tvö ár. Vélbúnaður var þónokkur, en fyrir utan fjöldan allan af vinnustöðvum með öllu tilheyrandi vorum við með gagnastæður sem héldu allt að 20TB af gögnum og renderfarm til að framkalla myndina sem var um 800 örgjörva-þræðir sem þýðir að um það bil 250 þónokkuð öflugar heimilisvélar hafi þurft til að framkalla myndina á 16 mánuðum.
Geturu lýst venjulegum vinnudegi við gerð myndarinnar ?
Það er erfitt að lýsa venjulegum vinnudegi þar sem gerð svona myndar er mjög breytileg eftir því hvar í framleiðslunni hún er stödd sem gerir engan dag eins. Annars byrjar dagurinn yfirleitt á tölvupóstum, fara yfir stöðu mála með verkefnastjórum og sjá til að þess að allt sé í eðlilegum farvegi. Einnig þarf að skoða það efni sem hefur verið í framleiðslu á þeim tíma og hjálpa til þar sem þarf og setjast svo yfir þróun og lausnum sem hjálpa okkur að komast í gegnum næstu fasa í framleiðslunni inni á milli allra þeirra funda sem fylgja svona framleiðslu.
Leikstjórar segja oft að atriði eru miserfið í tökum. Voru einhver atriði erfiðari að teikna en önnur ?
Algjörlega, en þau geta verið erfið á mjög mismunandi hátt; Allt frá því að að leikstýra atriðum, kvika persónurnar, skapa umhverfið,gera brellurnar eða jafnvel endanlega myndasamsetningin. Svo eru auðvitað sum atriði sem innhalda fleiri af þessum erfiðleikaþáttum en önnur og gæti ég talið upp ansi mörg í okkar tilfelli.
PIXAR nýta spunaleik fyrir teiknara sína og tæknimenn þegar þeir eru að gera atriði. Var svipuð aðferð notuð við gerð myndarinnar ?
Við notuðum ekki spunaleik fyrir myndina að jöfnu en okkar kvikarar höfðu aftur á móti mikið svigrúm til að þróa og skapa ýmislegt í kringum sýnar senur hvort sem það var með spuna eða einhverju öðru, enda misjafnt hvaða aðferð hentar hverjum og einum.
Að lokum set ég hér inn 4 stillur sem sýna ferlið sem á sér stað frá teikniborðinu að lokaútgáfu myndarinnar.