Viltu vinna Warrior á DVD?

Ein harðasta mynd ársins 2011, Warrior, dettur í verslanir núna á fimmtudaginn og þar sem um er að ræða eina af albestu myndum þess árs (svo segir allavega undirritaður, og Axel) ætlar Kvikmyndir.is að gefa nokkur eintök af þessu grjóti á næstu tveimur dögum.

Myndin segir frá Tommy Riordan, sem er fyrrverandi sjóliði í her Bandaríkjanna sem snýr aftur á heimaslóðirnar í Pittsburgh eftir margra ára fjarveru. Tilefnið er að hann ætlar sér að taka þátt í MMA – keppni í blönduðum bardagalistum, þar sem metfé, fimm milljónir dollara, fæst fyrir sigur. Tommy, sem er þjáður af draugum úr fortíð sinni, byrjar á því að leita uppi föður sinn, Paddy, og fær hann til að taka sig í þjálfun fyrir keppnina, en Paddy hafði einmitt þjálfað hann á árum áður og gert hann að einum besta bardagamanni Bandaríkjanna. Á sama tíma ákveður bróðir Tommys, Brendan, einnig að taka þátt í keppninni. Brendan starfar sem kennari en hefur átt erfitt með að láta enda ná saman. Þess vegna lætur hann sig einnig dreyma um að ná langt í keppninni en er um leið sá eini sem telur sig eiga einhverja möguleika á móti þeim bestu, þar á meðal bróður sínum og föður sem hann hefur hvorki hitt né talað við í mörg ár.

Þó svo að Tom Hardy sé ekki nafn sem allir þekkja í dag, þá á hann eftir að verða það í lok júlímánaðar á þessu ári (ef þið vitið ekki hvers vegna, þá eigið þið ekkert að vera að skoða kvikmyndasíður). Hardy fer með annað aðalhlutverkið í Warrior ásamt Joel Edgerton (The Thing) og Nick Nolte, sem er tilnefndur til Óskars í ár fyrir besta karlleikara (dö…) í aukahlutverki.

Til þess að eiga séns á því að vinna eitt stykki DVD, þá bið ég þig einungis um að senda mér tölvupóst á tommi@kvikmyndir.is og segja mér hvaða þrjár myndir með Tom Hardy þér finnst vera langbestar. Þeir sem geta ekki nefnt heilar þrjár (skammist ykkar!), þeir mega nefna eina eða tvær, svo lengi sem góður rökstuðningur fylgir með.

Ég dreg síðan út vinningshafa á fimmtudaginn og hef beint samband við þá – að venju.

Gangi ykkur vel, elskurnar.

Að lokum vil ég sérstaklega hrósa Myndform fyrir að nota ekki sama DVD-hulstur og í bandaríkjunum. Vel gert. Þið kunnið þetta!