Biðin er á enda. Fyrsta stiklan fyrir nýju Halloween myndina er loksins komin út. Eins og sést í stiklunni þá er geðsjúklingurinn og fjöldamorðinginn Michael Myers í hámarks öryggisgæslu á geðspítala í upphafi myndar. Í einu atriði í stiklunni sjást aðalpersónur myndarinnar reyna að eiga við hann samskipti í sérkennilegum spítalagarði, og draga þar upp grímuna frægu sem hann setur jafnan upp.
En þá dynur ógæfan yfir. Rúta sem er að flytja fangana/sjúklingana lendir í slysi og Myers sleppur, og þar með hefst hryllingurinn á nýjan leik.
Sjálf Jamie Lee Curtis, sem lék aðalhlutverkið í upprunalegu myndinni, er hér mætt aftur til leiks í gervi Laurie Strode. Hún hefur nú beðið í ein 40 ár eftir að horfast í augu við kvalara sinn á ný.
Leikstjóri er David Gordon Green. Aðrir helstu leikarar eru Judy Greer, Will Patton, Andi Matichak og Nick Castle í hlutverki Michael Myers.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan. Myndin kemur í bíó hér á Íslandi 19. október nk.