Vill fresta réttarhöldunum vegna ótrúlegra skepna

Bandaríski leikarinn Johnny Depp hefur lagt fram beiðni um frest á áframhaldi réttarhalda hans gegn fjölmiðlinum The Sun. Frá þessu var fyrst greint í Deadline og segir þar að tökur á þriðju Fantastic Beasts myndinni stangist á við réttarhöldin.

Eins og mörgum er kunnugt gerist Fantastic Beasts í töfraheimi Harry Potter sem rithöfundurinn J.K. Rowling skapaði. Í spin-off seríunni svonefndu fer Depp með hlutverk alræmda töframannsins Gellert Grindelwald. Gert er ráð fyrir að allir helstu leikarar hinna tveggja Fantastic Beasts myndanna muni snúa aftur, meðal annars Eddie Redmayne, Dan Fogler, Katherine Waterston, Ezra Miller, Alison Sudol og Jude Law sem Dumbledore á yngri árum.

Þess má geta að Rowling sjálf skrifaði handritið að fyrri Fantastic Beasts myndinni en að þessu sinni skrifar hún söguna ásamt Steven Kloves. Unnendur Harry Potter myndanna ættu að kannast vel við nafnið enda skrifaði hann handritsaðlögunina að öllum myndum seríunnar fyrir utan þá fimmtu, The Order of the Phoenix.

Tökum á Fantastic Beasts 3 var upphaflega frestað vegna kórónuveirunnar. Nú er reiknað með að allt fari af stað næstkomandi október og er áætlað að þeim ljúki í febrúar. Búist var við að réttarhöldin myndu taka upp þráðinn í janúar, en Depp fer fram á nýja dagsetningu á milli marsmánaðar og júní 2021.

Lægðir og hægðir hjónabandsins


Í mars 2019 höfðaði leikarinn málið vegna frétta Sun um að hann hafi beitt fyrr­ver­andi eig­in­konu sína of­beldi, leikkonuna Amber Heard. Depp hef­ur meðal ann­ars verið sakaður um að slegið hana þegar hún hló að húðflúri hans Wino For­ever. Depp kvaðst ekki muna eft­ir nein­um slík­um átök­um.

Depp hefur farið hörðum orðum um Heard við vitna­leiðslur í rétt­ar­höld­unum og seg­ir Heard hafa beitt sig viðvar­andi of­beldi í hjóna­band­inu, að hún hafi eingöngu gengið í hjónaband með honum til að öðlast meiri frægð. Á meðal frásagna í vitnaleiðslunum er fullyrðing Depp um að leikkonan hafi haft hægðir í rúm þeirra. Að hans sögn var það dropinn sem fyllti mælinn og ákvað hann þá að skilja við hana.

Depp hefur lýst Heard sem siðblind­ingja, og sagt við öryggisvörð hans að hann væri feit­ur gam­all karl og hún hafi séð eftir að hafa giftst honum. Þegar leikkonan bar vitni kom fram í hennar máli að Depp hafi ítrekað hótað að drepa hana.

Tilkynnt verður þann 11. september næstkomandi hvort frestunin verði samþykkt.