Disney kvikmyndafyrirtækið vill fá leikkonuna Emily Blunt sem næstu Mary Poppins, hina fljúgandi barnfóstru, í nýrri mynd Rob Marshall.
Í frétt Empire kvikmyndaritsins segir að David Magee skrifi handrit sem unnið er upp úr bókum P.L. Travers. Myndin ku eiga að gerast 20 árum eftir að upprunalega myndin gerðist, þegar Mary kemur til að aðstoða Banks fjölskylduna í kreppunni miklu í Bandaríkjunum.
Upprunalegi meðhöfundur tónlistarinnar í fyrstu myndinni, Richard Sherman, hefur gefið blessun sína fyrir framhaldinu, en mun þó ekki semja tónlistina, heldur munu Marc Shaiman og Scott Wittman sjá um þann þátt.
Empire segir að þó að Disney vilji fá Blunt í hlutverkið þá eigi hún enn eftir að púsla verkefninu saman við önnur verkefni í dagbókinni. Auk þess er hún ófrísk af öðru barni þeirra John Krasinski, sem gæti eitthvað spilað inn í verkefnastöðuna.
Blunt sést næst í The Huntsman: Winter’s War sem verður frumsýnd 8. apríl nk.