Dýraverndunarsinnar setja nú þrýsting á leikstjórann Tim Burton, sem mun leikstýra leikinni mynd um Disney fílinn Dumbo, sem flýgur á eyrunum, að hann breyti endi sögunnar, sem er fyrir löngu orðin sígild.
PETA dýraverndunarsamtökin hafa skrifað opið bréf til Big Eyes leikstjórans og leggja þar til að „hinn ungi fíll og móðir hans geti fengið góð endalok með því að ljúka lífi sínu í friðlandi fyrir dýr.
Í upprunalegu teiknimyndinni, frá árinu 1941, þá endar myndin á því að Dumbo hittir móður sína á ný, og fær að búa í lúxus vagni í sirkuslestinni.
Aðstoðarforstjóri PETA, Lisa Lange, segir að myndin sýni hinn unga fíl „áfram í fangelsi og misnotaðan í skemmtanaiðnaðinum.“
Í bréfinu segir Lange: „Við elskum hina sígildu Dúmbó sögu því hún segir frá átakanlegri misnotkun sem fílar í fjölleikahúsum þurfa að þola, og við vonum að þú munir segja þá sögu í nýju myndinni.“
„Bullhook er beitt járnvopn sem er notað í fjölleikahúsum til að stjórna fílum – og það er sama vopn og er notað af fílatemjurum í kvikmyndum og í sjónvarpi. Og rétt eins og í fjölleikahúsum, þá gera fílarnir það sem þeir gera, ekki af því að þeim langar til þess, heldur af því að þeir eru neyddir til þess, og barðir ef þeir gera það ekki.“
Óvíst er hvort Burton, sem tilkynnti um myndina fyrr í vikunni, muni nota alvöru fíla í myndinni eða tölvugerða.
Frumsýningardagur er enn óákveðinn. Talið er að myndin verði blanda af tæknibrellum og alvöru leikurum, í sama stíl og leiknar Disney myndir síðustu ára.
Myndin kemur í kjölfar annarra leikinna Disneymynda, eins og Cinderella, eða Öskubuska, Maleficent ( sem er unnin upp úr sögunni um Mjallhvíti ) og Alice in Wonderland, eða Lísa í Undralandi.
Fleiri leiknar Disney myndir eru í undirbúningi, eins og Skógarlíf, eða The Jungle Book, sem er væntanleg á næsta ári, Fríða og dýrið, eða Beauty and the Beast, sem er væntanleg 2017 og Alice in Wonderland: Through the Looking Glass.