Íslenska stuttmyndin Víkingar hefur verið valin til þátttöku á Critics‘ Week á Cannes kvikmyndahátíðinni. Alls voru 1724 stuttmyndir skoðaðar og að lokum voru aðeins 10 þeirra valdar til þátttöku á Critics‘ Week. Víkingar er ein þeirra og er þetta því mikill heiður fyrir alla aðstandendur myndarinnar, að því er segir í fréttatilkynningu frá kvikmyndamiðstöð Íslands.
Víkingar er franskt/íslenskt samvinnuverkefni með þeim Sveini Ólafi Gunnarssyni, Damon Younger, Margréti Bjarnadóttur, Ólafi Egilssyni og Þresti Leó Gunnarssyni í aðalhlutverkum. Myndin var tekin upp hér á landi. Leikstjóri myndarinnar er hin franska Magali Magistry og skrifar hún handritið einnig ásamt Chris Briggs. Aðalframleiðendur myndarinnar eru Skúli Fr. Malmquist, Jérôme Barthélemy og Daniel Sauvage. Samframleiðandi er Þórir Snær Sigurjónsson. Meðframleiðslufyrirtæki er hið íslenska Zik Zak Filmworks. Högni Egilsson samdi tónlist myndarinnar.
Víkingar gerist á tveimur tímaskeiðum, annars vegar árið 1000 og hins vegar árið 2012. Myndin segir frá Magnúsi, óttalausum víkingi sem hyggst skora Bjarna Berserk á hólm þar sem hann nam konu og barn Magnúsar á brott. Einnig segir myndin frá Magnúsi, hetjunni í vonlausu víkingafarandleikhúsi, sem á í erfiðleikum með að ná aftur saman við son sinn í kjölfar sársaukafulls skilnaðar.
Cannes kvikmyndahátíðin fer fram í 66. skipti dagana 15. – 26. maí. Critics‘ Week er ein helsta hliðardagskrá Cannes hátíðarinnar og er sérstaklega ætluð nýjum leikstjórum. Nánar tiltekið eiga myndir sem taka þátt á Critics‘ Week það sameiginlegt að vera annað hvort fyrsta eða önnur mynd leikstjóra.
Víkingar er önnur íslenska myndin sem hefur verið valin til þátttöku á Cannes í ár þar sem stuttmyndin Hvalfjörður í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar er ein af 9 stuttmyndum sem keppa um Gullpálmann í ár, eins og sagt var frá hér á kvikmyndir.is á dögunum.