Kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Berdreymi, hlaut verðlaun um síðustu helgi á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transilvaníu í Rúmeníu. Verðlaunin voru þau fjórðu á stuttum tíma sem kvikmyndin fær en á síðustu dögum hefur hún einnig fengið verðlaun á hátíðum í Slóveníu, Mexíkó og Ítalíu.
Í tilkynningu frá framleiðanda myndarinnar segir að dómnefndin í Transilvaníu hafi veitt myndinni næst stærstu verðlaun hátíðarinnar, 3.500 evra leikstjórnarverðlaunin, sem veitt voru fyrir þann „trúverðuga, frumlega og ljómandi heim“ sem Guðmundur Arnar Guðmundsson skapaði í Berdreymi.
Guðmundur hlaut einnig leikstjórnarverðlaunin á hátíðinni árið 2017 fyrir kvikmynd
sína Hjartastein.
Lífleg nærvera
Í Slóveníu fékk myndin Gullna eplið á Kranj Actors kvikmyndahátíðinni. Í umsögn dómnefndar segir: “Ótrúlega lífleg nærvera ungra leikara fyrir framan myndavélina sogar okkur
inn í söguna frá fyrsta ramma og fær okkur til að halda inni andanum alveg fram í lok myndar.
Leikarahópnum tekst að leika hlutverk sín á þann hátt sem hver stór kvikmyndastjarna getur aðeins látið sig dreyma um. Hæfileikar slíks leiklistarhóps eiga skilið tækifæri til að læra leiklist og byggja upp
rótgróinn feril út frá þessu mikla fyrirheiti.“
Aðalleikararnir fengu einnig verðlaun á FICG, Festival Internacional de Cine en Guadalajara í Mexíkó.
Þá hlaut Berdreymi einnig verðlaun ítalska kvikmyndagagnrýnenda á Biografilm kvikmyndahátíðinni, í
keppnisflokknum Europe Beyond Borders.
Berdreymi var heimsfrumsýnd í febrúar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, þar sem hún hlaut
Europa Cinemas Label verðlaunin sem besta evrópska myndin í Panorama flokki. Í apríl mánuði vann hún svo til FIPRESCI verðlauna á OFF Camera kvikmyndahátíðinni í Póllandi og eru verðlaunin því orðin sex talsins.
Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem á skyggna móður. Hann og vinir hans alast upp án eftirlits og nota slagsmál til að leysa ágreining. Einn daginn ákveður Addi að taka vinalausan strák undir sinn verndarvæng. Djúp vinátta myndast á milli strákanna en ögrandi hegðun þeirra leiðir þá í lífshættulegar aðstæður. Draumkenndar sýnir byrja þá að birtast Adda. Mun nýfengið innsæi hans verða honum og vinum hans leiðarljós í átt að betra lífi eða munu þeir sökkva lengra inní heim ofbeldis?
Fimm landa verkefni
Guðmundur Arnar skrifaði handritið og leikstýrði og með helstu hlutverk fara ungstirnin Birgir Dagur
Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson, og Snorri Rafn Frímannsson, ásamt Anítu Briem, Ólaf Darra Ólafssyni og Ísgerði Gunnarsdóttur. Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni
Svansson fyrir hönd Join Motion Pictures, en myndin er samstarfsverkefni fimm landa með meðframleiðendur frá Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Tékklandi.