Föstudaginn 7. september verður íslenska bíómyndin Veðramót frumsýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Regnboganum og Nýja bíói Akureyri, en hún er í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur. Í fréttatilkynningu segir að myndin sé áhrifarík og fjalli um þrjá bjartsýna byltingasinna sem fara norður í land og taka að sér stjórn á vistheimili fyrir vandræðaunglinga Veðramótum. Fljótlega uppgötva þau að hugsjónirnar sem þau lögðu upp með duga ekki alls staðar. Myndir fjallar á óvæginn hátt um sifjaspell, ofbeldi og mannshvörf og þau úrræði sem í boði voru fyrir fórnarlömb ofbeldis – allt fram til þessa dags. Margir þekktir leikarar eru í myndinni eins og Hilmir Snær, Þröstur Leó, Helgi Björns, Atli Rafn, Elma Lísa og Jóhann Sigurðarson ásamt ungum og upprennandi leikurum eins og Baltasar Breka, syni Baltasars Kormáks leikstjóra og Bryndís Jakobsdóttur, dóttir Jakobs Stuðmanns og Röggu Gísladóttur sem syngur lag í myndinni en Ragga Gísla sér um tónlistina í myndinni. Þess má geta að Guðný Halldórsdóttir var nokkur sumur umsjónarmaður á Breiðuvík en málefni þeirra stofnunar fóru mikinn í þjóðfélagsumræðunni fyrir nokkrum mánuðum. Myndin hefur verið valin til sýninga á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar en hátíðin er ein sex svokallaðra A-hátíða.

