Úr álögum sigurmynd Ljósvakaljóða 2006

Stuttmyndin Úr álögum eftir Hauk Valdimar Pálsson bar sigur úr býtum á Ljósvakaljóðum 2006, stuttmyndakeppni ætluð ungu fólki. Af jörðu eftir Halldór Ragnar Halldórsson og Helga Jóhannsson fengu svokölluð hvatningarverðlaun en Vegur eftir Hannes Þór Halldórsson hlaut áhorfendaverðlaun. Dómnefnd skipuðu Sólveig Anspach, Ragnar Bragason og Álfrún Örnólfsdóttir. Sigurmyndin hlaut kr. 50.000 í verðlaun frá Reykjavíkurborg.

Keppnin fór fram í Ráðhúsinu en er þetta sú fyrsta sem haldin er hér á landi með þessu fyrirkomulagi. Fyrr um daginn voru umræður þar sem reyndir kvikmyndagerðarmenn fræddu áhugasama um allt milli himins og jarðar um kvikmyndageirann við góðar undirtektir. Ásgrímur Sverrisson stýrði umræðunum en Dagur Kári Pétursson, Ragnar Bragason og Skúli Malmquist svöruðu spurningum þátttakenda.