Ný mynd eftir skáldsögu Seth Grahame-Smith er væntanleg í bíó í Bandaríkjunum í febrúar nk., en margir muna væntanlega eftir Abraham Lincoln: Vampire Hunter sem gerð var eftir sögu sama höfundar.
Þessi nýja mynd heitir því fallega nafni Pride and Prejudice and Zombies, og er eins og nafnið ber með sér , mynd um uppvakninga, og á sér stað í hinni sígildu sögu Pride and Prejudice eftir Jane Austin.
Eins og segir í frétt FilmStage.com þá ætlaði Óskarsleikstjórinn David O. Russell upphaflega að leikstýra myndinni, en ákvað að stíga frá því en taka þó þátt í handritaskrifum.
Við leikstjórakeflinu tók Burr Steers.
Með helstu hlutverk fara Lily James, Bella Heathcote, Suki Waterhouse, Ellie Bamber, Millie Brady, Sam Riley, Jack Huston, Lena Headey, Douglas Booth, Matt Smith og Charles Dance.
Fyrsta stiklan er nú komin úr myndinni og má sjá hana hér fyrir neðan:
Pride and Prejudice and Zombies er ný nálgun á þessa þekktu sögu Jane Austin. Dularfull plága herjar á England 19. aldarinnar, og blóðþyrstir uppvakningar fara í flokkum um landið. Elizabeth Bennet kemur þar sterk inn, en hún er þjálfuð í bardagalistum og vopnaburði og lætur uppvakningana finna til tevatnsins.
Myndin er væntanleg á hvíta tjaldið 5. febrúar nk.