Fyrir viku síðan hélt Nigel Cook, stjórnandi hjá Marvel International, kynningu á Disney ráðstefnu í Mexíkó, þar sem hann ræddi um Marvel heiminn.
Auk þess að birta nokkur sýnishorn úr Iron Man 3 þá kynnti hann og spilaði fyrstu stikluna úr Thor: The Dark World, sem verður frumsýnd opinberlega á þriðjudaginn í næstu viku.
Á mexíkóskri Facebook síðu Marvel er birt lýsing á stiklunni, sem er svona í lauslegri þýðingu:
Stiklan hefst á myndasýningu af kunnuglegum myndum og ljósmyndum af tökustað, áður en stiklan hefst fyrir alvöru.
Stiklan byrjar á því að Thor talar yfir nokkrar stuttar hasarsenur, ásamt Jane Foster í Ásgarðsbúningi og Jarðarbúar sjást hlaupa „eitthvað út í loftið“.
Thor segir Jane að hann hafi lofað að snúa aftur og sýnd eru atriði með Thor að koma aftur til Jarðar og fara með Jane aftur í Ásgarð.
Hasaratriðin í stiklunni eru sögð vera „ótrúleg“ og Thor er sýndur laminn í buff. Hann er þreyttur og Malekith, leiðtogi The Dark Elves, er sýndur algjörlega óttalaus gagnvart Thor.
Framtíðarlegt glerfangelsi er sýnt, og Loki situr þar inni eftir atburðina sem gerðust í myndinni The Avengers.
Thor kemur til hans og segir: „Ég þarfnast hjálpar þinnar, en ef þú svíkur mig, þá mun ég drepa þig.“
Loki svarar glottandi: „Hvað er það sem þú vilt að ég geri?“
Thor er sýndur berjast við Malekith og Jane horfir á. Malekith ógnar henni, og Thor, sem er laskaður eftir barsmíðar, sér Dark Elf King og öskrar: „Neiiiiiiiiiii!“
Svo mörg voru þau orð.
En þetta mun svo allt saman sjást betur þegar stiklan verður frumsýnd á þriðjudaginn næsta.