Kate Beckinsale, í hlutverki sínu sem vampírubaninn Selene, kallar ekki allt ömmu sína í fyrstu stiklu fyrir Underworld 5: Blood Wars, sem var að koma út.
Í myndinni er haldið áfram að segja sögu sem hófst árið 2003 í fyrstu Underworld myndinni, og Selena og félagi hennar, David, fást nú við nýjar ógnir þegar stríðið á milli vampíranna og varúlfanna geisar sem aldrei fyrr.
Von er á myndinni í bíó 2. desember nk. hér á Íslandi.
The Divergent leikarinn Theo James snýr aftur í hlutverki David, en hann kom fyrst við sögu í Underworld: Awakening.
Aðrir helstu leikarar eru Tobias Menzies (Outlander, Rome) og Lara Pulver (Sherlock), en þau leika nýjan leiðtoga varúlfanna og metnaðarfulla vampíru.
Charles Dance (Game of Thrones) snýr aftur sem vampíran Thomas. James Faulkner (Game of Thrones), Peter Andersson (The Girl with the Dragon Tattoo), Bradley James (Damien), Daisy Head (Fallen) og nýliðinn Clementine Nicholson koma einnig við sögu.
Leikstjóri er Anna Foerster, en hún er best þekkt fyrir leikstjórn sína á einstökum þáttum í glæpaþáttaröðinni Glæpahneigð.
Hún er einnig þekktur kvikmyndatökumaður úr myndum eins og Independence Day, The Day After Tomorrow og White House Down.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: