Underworld 2?

Eftir að í ljós kom að vampíru/varúlfatryllirinn Underworld er að gera mjög fínan bissness í kvikmyndahúsum vestra, var óhjákvæmilegt kannski að undirbúningur að framhaldi/framhöldum kæmist af stað. Sony kvikmyndaverið, sem dreifir myndinni, er að vinna að því að koma Underworld 2 eins hratt af stað og auðið er. Handritshöfundurinn Danny McBride og leikstjóri fyrri myndarinnar, Len Wiseman, hafa verið ráðnir til að skrifa handritið, og mun þá líklega Wiseman aftur leikstýra. Stefnt er að því að ná síðan Kate Beckinsale aftur í aðalhlutverkið, en það sem gerir það líklegra er sú staðreynd að hún er gift leikstjóranum. Einnig hefur komið upp sú hugmynd að gera þriðju Underworld myndina um leið og tökum á númer 2 lýkur, og myndi hún gerast á undan þeim. Allt mun þetta þó koma betur í ljós á komandi mánuðum.