Árið 2009 gerðu þremeningarnir Bradley Cooper, Ed Helms og Zach Galifianakis garðinn frægan þegar að grínmyndin vinsæla, The Hangover, kom út. Í fyrra kom síðan út framhald sem olli ansi miklum vonbrigðum og leit það út fyrir að serían hefði átt að enda eftir fyrstu myndina. Serían ætlar þó ekki að hætta á næstunni því, eins og leikstjórinn Todd Phillips hefur sagt, var hún hugsuð sem þríleikur og fer framleiðsla á The Hangover Part III að byrja. Úlfaflokkur myndanna stendur nú í því að semja um laun þeirra fyrir að leika í þriðju myndinni, en þeir fengu að sögn rétt undir 1 milljón dollara fyrir fyrstu myndina og 5 milljónir fyrir þá seinni. Launahækkunin verður ágæt, en þeir eru að fara fram á 15 milljóna laun fyrir verkefnið.
Myndin hefur legið í huga Todd Phillips í ákveðinn tíma núna og hefur hann áður sagt að hann viti hvert hún mun stefna sögulega séð og að hún mun ekki fylgja sömu formúlu og hinar tvær. Bradley Cooper nefndi í desember síðastliðnum að tökur gætu hafist í september á þessu ári, en Warner Bros. vonast til að hefja þær í sumar og mun myndin gerast í Los Angeles.
Síðan ef allt gengur að óskum ætti hún að koma út í maí 2013.