Tveir bræður, Kevin og Dan Hageman, fluttu nýverið frá Oregon til Los Angeles til þess að láta reyna á það hvort þeir gætu átt framtíðina fyrir sér sem handritshöfundar. Þeir reyndu að selja Dreamworks kvikmyndaverinu handrit sem þeir höfðu skrifað, og kölluðu The Nightmare Of Hugo Bearing. Dreamworks leist vel á handritið, og sendu það áfram til Steven Spielberg. Hann hreifst einnig af því, sem og ritstíl þeirra, og bað þá um að skrifa handritið að hugmynd sem hann hafði að kvikmynd um 13 ára undrabarn. Þeir voru semsé ráðnir á staðnum, skömmu eftir komu sína til Hollywood, til þess að skrifa handritið Charlie Dills fyrir sjálfan Steven Spielberg, og sýnir það svart á hvítu að ef menn eru heppnir og hafa hæfileika, er allt hægt í þessum heimi.

