Tvær nýjar myndir koma í bíó 1. apríl nk.; Maður sem heitir Ove og 10 Cloverfield Lane.
„Maður sem heitir Ove byggir á samnefndri metsölubók sem seldist í yfir 10.000 eintökum á Íslandi. Því ættu margir Íslendingar að kannast við fýlupúkann Ove,“ segir í tilkynningu frá Senu.
Ove er 59 ára gamall náungi sem við fyrstu kynni virðist frekar þurr á manninn og leiðinlegur. Nokkrum árum áður en myndin gerist var honum steypt af stóli sem formanni nágrannavaktarinnar. Honum er alveg sama og heldur áfram að stjórna hverfinu harðri hendi.
Ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskylduna sína í húsið á móti Ove en fjölskyldan slysast til að bakka á póstkassa Oves. Eftir það taka að myndast ófyrirsjáanleg vinabönd.
Myndin er frumsýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.
Leikstjóri: Hannes Holm
Aðalhlutverk: Rolf Lassgård, Zozan Akgün, Tobias Almborg, o.fl.
Sjáðu stiklu hér fyrir neðan:
A man called Ove / En man som heter Ove – Trailer from Orange Valley Production on Vimeo.
10 Cloverfield Lane
10 Cloverfield Lane er sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Cloverfield.
Þegar Michelle rankar við sér eftir að hafa misst meðvitund í bílslysi er hún stödd í neðanjarðarbyrgi þar sem tveir menn, Howard og Emmet, segja henni að það sé ekki lengur óhætt að fara út vegna banvænnar loftmengunar. En eru þeir að segja satt?
Aðalhlutverk: John Goodman, Mary Elizabeth Winstead, John Gallagher Jr. og Bradley Cooper
Leikstjórn: Dan Trachtenberg
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Selfossbíó, Bíóhöllin Akranesi, Ísafjarðarbíó og Króksbíó Sauðárkróki
Aldurstakmark: 16 ára
Sjáðu stiklu hér fyrir neðan:
Fróðleiksmolar til gamans:
– Framleiðslu á 10 Cloverfield Lane var haldið leyndri allt þar til fyrsta stiklan var sýnd á undan myndinni Triple 9, en þangað til höfðu aðeins þeir sem unnu að myndinni vitað af vinnslu hennar. Ástæðan er fyrst og fremst söguþráðurinn og allt það óvænta sem gerist í myndinni en þetta er ein af þeim myndum þar sem „plottið“ má alls ekki spyrjast of mikið út til að eyðileggja ekki fyrir væntanlegum áhorfendum. Þeir sem sjá myndina snemma eru því vinsamlega beðnir að segja ekki öðrum frá því sem gerist heldur leyfa fléttunni að koma þeim á óvart.