Hvort sem áhorfendum (eða Pixar-mönnum…) líkar vel við það eða ekki þá er búið að gefa grænt ljós á þriðju Toy Story myndina. Fyrirtækið Pixar Animations er – eins og flestir vita – orðið sjálfstætt núna og verður það fullkomlega eftir að myndin Cars verður gefin út (2006), en það er síðasta mynd Disney/Pixar samstarfsins. En mennirnir hjá Pixar sögðu að annað framhald af Toy Story kæmi ekki til greina og voru þeir löngu búnir að afskrifa það, svo á endanum ákvað Disney að gera myndina án þeirra, þar sem augljóst magn af seðlum mun skila sér inn með þessu. Handritið er skrifað af nýliðanum Jared Stern, og hófst hugmynd þessarar myndar með sögunni sem hann fann upp á. Söguþráðurinn í þriðju myndinni á sumsé að vera góður, a.m.k. þótti hann nógu góður til að heilla Disney aðstandendur.
Hins vegar má setja stórt spurningarmerki á þessa hugmynd. Toy Story án Pixar?? Það hljómar álíka fáránlega og Star Wars án George Lucas.
Því miður er ekkert vitað um hvort myndin fari beint á vídeó eða staldri við í bíóum.

