Pixar kvikmyndaverið, sem er í eigu Disney, tilkynnti fyrir stuttu að von væri á fjórðu Toy Story myndinni, eða Leikfangasögu, árið 2017, og að enginn annar en leikstjóri fyrstu og annarrar myndarinnar, John Lasseter myndi leikstýra á ný.
Þriðja myndin sló öll met og fékk frábærar viðtökur þegar hún kom út árið 2010. Í myndinni voru leikföngin gefin á leikskóla eftir að eigandi þeirra, Addi, hafði misst áhuga á þeim. Börnin á leikskólanum léku sér því miður ekki fallega með dótið sitt svo Viddi og Bósi, ásamt öllum hinum leikföngunum, lögðu á flótta.
Fyrstu drög að myndinni voru í allt aðra átt. Upprunalega handritið fjallaði um leikföngin í leit að Bósa í Taívan. Myndin átti að fjalla um ferðalag leikfanganna á afskekktar slóðir til þess að endurheimta vin sinn sem hafði misst öll tök á sjálfum sér.
Hér að neðan má sjá teikningar að myndinni sem aldrei varð.