Í tilefni af feðradeginum, sem er í dag sunnudag, birtum við hér fyrsta atriðið úr fyrstu mynd sem Joseph Gordon-Levitt leikstýrir, Don Jon, en Levitt er þekktur fyrir leik í myndum eins og The Dark Knight Rises og 500 Days of Summer.
Don Jon var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar sl. en fer í almennar sýningar í Bandaríkjunum 27. september nk.
Sjáðu atriðið hér að neðan, en þar kemur Gordon-Levitt heim með Scarlett Johanson og kynnir fyrir foreldrum sínum, en pabbinn er leikinn af engum öðrum en Tony Danza sem lék aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum vinsælu Who´s The Boss, sem sýndir voru hér á landi um árið.
Don Jon fjallar um Jon Martell, sem Gordon-Levitt leikur, sem er sterkur, myndarlegur, og gamaldags gæi. Vinir hans kalla hann Don Jon vegna þess hæfileika hans að geta náð sér í nýja stelpu um hverja helgi. Fyrir honum jafnast þó ekkert á við að vera heima og horfa á gamlar og góðar klámmyndir. Barbara Sugarman, sem Scarlett Johansson, leikur, er klár, falleg og venjuleg stúlka sem hefur gömul og góð gildi í heiðri. Hún er alin upp við að horfa á rómantískar Hollywoodmyndir og er staðráðin í að finna draumaprinsinn og ríða með honum á hvítum hesti inn í sólarlagið. Þau Jon og Barbara þurfa nú að máta sínar eigin langanir og væntingar til hins kynsins við ímyndir nútímans, og reyna að tengjast nánum böndum mitt í þessu öllu.