Kvikmyndaleikarinn og Íslandsvinurinn Tom Cruise er orðaður við leik í myndinni Our Name is Adam, sem byggð er á handriti eftir T.S. Nowlin. Variety kvikmyndatímaritið segir að söguþráðurinn sé leyndarmál enn sem komið er, en um er að ræða vísindaskáldsögu.
Cruise hefur annars mörg önnur járn í eldinum. Nýlega lauk tökum á Oblivion, sem var tekin á Íslandi meðal annars, og er nú að vinna að All You Need is Kill.
Framhald á Mission: Impossible – Ghost Protocol er einnig í undirbúningi, sem og endurgerð The Magnificent Seven, og einnig endurræsing Van Helsing. Þá má ekki gleyma jólamyndinni um flækinginn og fyrrum herlögreglumanninn Jack Reacher í leikstjórn Christopher McQuarrie sem gerð er eftir sögunni One Shot eftir Lee Childs.
Fjölmargir aðdáendur Cruise hafa greinilega nóg að hlakka til.