Fyrsta stiklan fyrir söngvamyndina Rock of Ages er dottin á netið. Myndin er byggð á samnefndum Broadway söngleik, er aftur byggir á tónlist eftir gæðalistamenn á borð við Styx, Journey, Bon Jovi, Twisted Sister, Steve Perry og Poison, svo einhverjir séu nefndir. Söguþráðurinn er eitthvað á þá leið að sveitastúlka (Julianne Hough) og borgarstrákur (Diego Boneta) hittast og verða ástfangin við rokksenuna á því herrans ári 1987. Þau hanga í kringum skemmtistaðaeigendur (Alec Baldwin), rokkstjörnur (Tom Cruise), umboðsmenn (Paul Giamatti) og partýdýr (Russel Brand), og skemmta sér vel. En svo reynir náttúrulega eitthvað vont kristið fólk (Catherine Zeta Jones & Bryan Cranston) að stöðva allt fjörið. Leikstjóri er Adam Shankman (Hairspray). Hér er stiklan:
Það virðist vera talsverð eftirvænting eftir Rock of Ages og mikið lagt í myndina leikaralega séð. Ég verð að viðurkenna að ég hef nú ekki fylgst grannt með þróun myndarinnar, enda fellur hún aðeins utan míns áhugasviðs. En stiklan er alveg fyndin. Er ég sá eini sem finnst Tom Cruise vera í svolitlum Magnolia fíling þarna? En gæti þetta ekki orðið skemmtilegt?