Tökur eru hafnar á myndinni Málmhaus í leikstjórn Ragnars Bragasonar, að því er fram kemur í Fréttablaðinu. Upptökur fara víða fram, meðal annars í Reykjavík, undir Eyjafjöllum, á Snæfellsnesi, Kjalarnesi, Selfossi og á Hellisheiði. Í blaðinu segir að mikið sé lagt í að gera myndina sem flottasta og hefur glæsilegt stúdíó verið útbúið í útjaðri Reykjavíkur þar sem hluti af tökunum fer fram.
Með aðalhlutverk í myndinni fara Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Þorbjörg Obba Dýrfjörð. Frumsýning verður næsta haust.
Myndin gerist á kúabúi snemma á tíunda ártugnum, 1992, og fjallar um stúlku sem býr þar ásamt fjölskyldu sinni og dreymir um að verða rokkstjarna, er utangarðs í þessu litla sveita samfélagi og er í uppreisn gegn öllu. Stúlkan er mikill aðdáandi málmtónlistar, þ.e. þungarokks, og er því svokallaður málmhaus eða metal head.