Leikarinn Jeff Daniels tilkynnti í viðtali við Jimmy Fallon á dögunum að framhaldsmyndin Dumb and Dumber To byrjar í tökum í september næstkomandi. Jim Carrey og Daniels munu báðir snúa aftur í hlutverkum sínum og Farrelly-bræður leikstýra að nýju.
„Handritið er sprenghlægilegt, við erum miðaldra, og erum ekki að þykjast vera yngri og erum ennþá jafn heimskir.“ sagði Daniels við Fallon.
Við greindum frá því í síðasta mánuði að kvikmyndaverið Warner Bros hafnaði því að framleiða framhaldsmyndina vegna þess að þeim leist ekki á handritið, einnig gaf kvikmyndaverið þau svör að Jim Carrey hafi ekki dregið nóg af fólki í kvikmyndahús upp á síðkastið. Kvikmyndaverið Universal brást skjótt við og tók upp hanskann fyrir Farrelly-bræður og munu framleiða framhaldsmyndina.
Dumb and Dumber To mun fjalla um Lloyd Christmas og Harry Dunne í leit að nýju nýra fyrir þann síðarnefnda. Í kjölfarið fara félagarnir á stjá í leit að dóttur Dunne, sem þeir halda að sé eina manneskjan sem myndi hugsanlega vera viljug til þess að gefa Dunne líffæri.
Upprunalega kvikmyndin Dumb and Dumber er ein vinsælasta gamanmynd allra tíma og fjallar um tvo nautheimska vini sem fara til Aspen til þess að skila tösku sem er í eigu fallegrar konu sem annar þeirra hitti á flugvelli.