Tók 11 daga að skjóta All eyes on me

Pascal Payant er kanadískur leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur frá Montreal. Hann tekur myndirnar sínar upp sjálfur og notar eingöngu hljóðmann og leikara að auki.

Hann útskrifaðist úr Quebec Háskóla í Montreal (UQAM) í handritssmíði og sálfræðilegri greiningu í kvikmyndum (Heimild: Pascal Payant, Imdb Mini bio). Hann hefur hlotið lof og ýmis verðlaun fyrir verk sín og hefur unnið að hluta til á Íslandi með íslenskum leikurum.

Payant talaði við Kvikmyndir.is um nýjustu mynd sína All eyes on me, sem skartar Guðmundi Inga Þorvaldssyni í aðalhlutverki. Aðrir leikarar eru Oliwia Drozdzyk, Svandís Dóra Einarsdóttir, Þóra Karitas og Ágúst Þór Ámundason.

Allra augu á mér (2025)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi

Gunnar hefur einangrað sig á bóndabæ sínum frá því að kona hans og ungur sonur fórust í hræðilegu slysi fyrir ári síðan. Mágkona hans skammar Gunnar fyrir að hafa ekki mætt í minningarathöfn um mæðginin og afhendir honum bréf frá konu hans heitinni þar sem ýjað er að ...

Betra að fá frelsið

Pascal segir í viðtalinu að honum finnist betra að fá frelsið sem fylgir því að vera ekki með upptöku- og kvikmyndagerðateymi á ‘kvikmyndasetti’. Það sé í raun ekkert kvikmyndasett. Hann nefnir sem dæmi atriði úr ‘April skies‘ þar sem hann þurfti sjálfur að hlaupa niður fimm hæðir í einu atriði með myndavél, til að ná einu skoti þar sem leikararnir tóku lyftu. Hann segist aldrei hafa getað framkvæmt það með stóra myndavél eða stærra teymi. Hann bætir við að með stærra teymi fylgi oft aukavinna og meira skipulag sem þvælist fyrir sköpuninni og stoppar flæðið í kvikmyndagerð.

Pascal segir þó að svona kvikmyndagerðastíl fylgi ýmsar áskoranir. Hann segir að leikararnir sjálfir þurfi að vera mjög öruggir í sínu fagi, en þegar traustið sé komið milli hans og leikarana verði upptakan auðveldari. Hann bætir svo við að honum finnist þægilegast vinna áfram með sömu leikara og sama teymi, því um leið og tengsl hafa mótast geri það samstarfið auðveldara.

Bara náttúruleg lýsing

Hvað varðar lýsingu á „setti“ þá notast Pascal eingöngu við náttúrulega lýsingu. Hann lagar sig að veðrinu og ytri aðstæðum en til að fá góða lýsingu snúist þetta fyrst og fremst um að velja vel og vandlega góða staðsetningu. „Það er einhver eftirvinnsla en hún er mjög takmörkuð, þá er ég aðallega að fá myndefnið til að poppa út. Annars er þetta aðallega staðsetningin.“

„Þannig tekur það styttri tíma að taka upp því þegar þú ert með gott veður og góða staðsetningu, þá þarftu ekki lengur að hugsa um þessa hluti og getur fókusað á leikarana og það sem þú vilt gera hverju sinni.“ Svo bætir hann við: „Mikill tími fer í að bíða á setti og í staðinn fyrir að bíða er hægt að nýta tímann til að prófa eitthvað nýtt eins og með lyftusenuna í April Skies.“

Hvernig undirbýrð þú leikarana fyrir slíkar tökur?
„Þeir fá í raun bara handritið, sem er skrifað á ensku, og þýða svo sjálfir yfir á það tungumál þar sem sagan eða hluti sögunnar á að gerast“.

Pascal segir að það sé best að treysta leikurum fyrir þýðingu textans því oft vita þeir betur hvernig hann yrði þulinn upp á það tungumál sem þeir sjálfir þekkja.

Pascal segist einnig gefa leikurum frelsi til að skapa þegar á tökum stendur. Hann heldur sig við handritið en leyfir stundum myndavélinni að rúlla á meðan leikarar fá svigrúm til að gera það sem þeim finnst eðlilegt í því umhverfi sem þeir eru að leika í.

Sem dæmi nefnir hann senu þar sem Guðmundur Ingi leikari var umkringdur hestum í íslenskri náttúru í myndinni ‘All eyes on me‘, þar sem Pascal gaf honum frelsi í tökunum til að athafna sig að vild. Einnig breytti hann og aðlagaði handritið þegar hann frétti að Svandís Dóra leikkona væri orðin ófrísk fyrir tökur á April Skies. Fyrst hafi ekkert í handritinu verið um óléttu en hann breytti sögunni þannig að Svandís gæti áfram leikið í myndinni.

Auðveldara á almannafæri

Annar kostur við að hafa svona lítið teymi og vera sveiganlegur í kvikmyndagerð er að það er auðveldara að fá að taka upp á almannafæri og sleppa við allskonar leyfi sem þarf til að taka upp kvikmynd á sumum þekktum stöðum og kennileitum. T.d. fékk hann auðveldlega grænt ljós á að taka upp hjá Louvre safninu í París eða inni í Hallgrímskirkju, því umfangið var svo lítið og teymið svo fyrirferðalítið að það lítur út eins og hverjir aðrir túristar eða í mesta falli áhrifavaldar að taka upp lítið myndband fyrir instagram rás.

Einnig segir hann að almenningur sé heldur ekkert að kippast sér upp við að það sé verið að taka upp kvikmynd og falli náttúrulega í bakgrunninn á rammanum í myndatökunni.

Um innblástur fyrir skrifin segist Pascal nota atvik og atburði úr eigin lífi. Hann segir einnig að ‘eitruð sambönd’ sé þema sem honum finnst gaman að kanna og notar þau þemu í myndunum til að skapa sögur og dramatískar afleiðingar sem karakterarnir þurfa að kljást við. Í nýjustu kvikmynd sína ‘All eyes on me‘ vildi hann einnig bæta við dassi af spennuráðgátu og kanna mannlega brestinn að ofmetnast.

Sem leikstjóri og framkvæmdastjóri Y-US Productions í meira en tvo áratugi hefur Pascal unnið yfir 100 alþjóðleg verðlaun fyrir verk sín, þ.á.m. verðlaun fyrir besta leikstjóra og bestu kvikmynd í fullri lengd. Fyrirtækið hans hefur verið drifkrafturinn á bak við framleiðslu á 10 kvikmyndum frá ólíkum heimshornum, sem sýnir skuldbindingu hans við nýsköpun í kvikmyndagerð og frásagnartækni.

Pascal Payant er að endurhugsa landslag kvikmyndagerðar og sannar að skapandi starfsemi og árangur getur vel náðst með takmörkuðum aðföngum (Heimild: Pascal Payant, Imdb Mini bio).

Aðrar heimildir: https://www.imdb.com/name/nm3331486/bio/?ref_=nm_ov_bio_sm