Kvikmyndaleikstjórinn Woody Allen hefur gefið nýjustu mynd sinni titilinn Magic in the Moonlight, eða Töfrar í tunglsljósinu í lauslegri íslenskri þýðingu.
Myndin gerist í suður Frakklandi og með helstu hlutverk fara Eileen Atkins, Colin Firth, Marcia Gay Harden, Hamish Linklater, Simon McBurney, Emma Stone og Jacki Weaver. Einnig koma við sögu Erica Leerhsen, Catherine McCormack, Paul Ritter og Jeremy Shamos.
Ekkert hefur verið látið uppi um söguþráðinn í myndinni, en miðað við myndirnar sem fylgja þessari frétt, þá gerist myndin á fjórða áratug síðustu aldar.
Magic in the Moonlight er 47. mynd Allen. Hann hefur verið tilnefndur til 23 Óskarsverðlauna á ferlinum og vann Óskarinn fyrir leikstjórn og handrit að Annie Hall, og einnig fyrir handrit að Midnight in Paris og Hannah and Her sisters.
46. mynd Allen, Blue Jasmine, er nú í bíó á Íslandi, en hún var frumsýnd 26. júlí sl.
Blue Jasmine hefur þénað 31 milljón Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og er enn í sýningum þar í landi. Auk þess hefur myndin þénað 18 milljónir dala utan Bandaríkjanna.