Það er fátt betra en að skella sér í bíó og horfa á vel heppnaða mynd. Bíó-mannasiðirnir þínir þurfa samt að vera í lagi, bæði svo að þú getir notið myndarinnar og einnig þeir sem sitja í næsta nágrenni við þig.
Reglur um góða hegðun í bíó ná aftur til þöglu myndanna, en stundum virðist fólk gleyma öllu því sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar ákveður að fara í bíó.
Hér eru tíu reglur, flestar óskrifaðar reyndar, frá The Hollywood News sem gott er að hafa í huga svo að allir geti átt ánægjulega bíóstund:
1. Aldrei að tala hátt. Ef það er algjörlega nauðsynlegt að segja eitthvað við sessunautinn talaðu þá mjög lágt.
2. Settu símann þinn á „silent“ eða láttu hann titra. Það telst vera í lagi að senda SMS eða Facebook-skilaboð en þá má ekkert hljóð heyrast. Annars gætu þeir sem sitja nálægt þér fljótt orðið pirraðir.
3. Ekki spyrja spurninga. Ef þú ert að horfa á framhaldsmynd, vertu þá búin(n) að horfa á fyrri myndina svo þú þurfir ekki að spyrja neinna spurninga.
4. Gakktu varlega um. Ef þú þarft að fara á salernið, ná þér í gos eða meira popp vill enginn að þú stígir ofan á fótinn sinn.
5. Hafðu hreint í kringum þig. Fólkið sem vinnur við að þrífa bíósalinn hefur ekki gaman af því að hreinsa upp draslið eftir þig.
6. Geymdu fæturna á gólfinu. Það er einfaldlega dónaskapur að setja fótinn eða fæturna upp á sætið fyrir framan þig þar sem einhver annar situr.
7. Reyndu að spilla ekki fyrir og segja frá því sem á eftir að gerast. Þótt þú sért að horfa á myndina í fimmta sinn þá máttu ekki segja sessunautnum sem hefur ekki séð myndina frá því sem gerist. Það er einfaldlega bannað!
8. Notaðu rétta glasahaldarann. Passaðu þig á því að nota ekki glasahaldarann sem tilheyrir sætinu við hliðina á þér. Það er aldrei líklegt til vinsælda.
9. Ekki hrjóta eða slefa. Það er í lagi að sofa í bíó en reyndu að sofa ekki of djúpum svefni þannig að þú ferð að hrjóta eða slefa á sessunaut þinn, sérstaklega ef þetta er á fyrsta stefnumótinu!
10. Það er dónaskapur að sparka í sætið fyrir framan þig. Sumir bíógestir hegða sér undarlega og sparka í sætið fyrir framan sig, án nokkurrar sérstakrar ástæðu. Þetta er alls ekki í lagi ef einhver situr í þessu sæti.