Tían: Vanmetnustu myndir áratugarins

Topplistar eru alls staðar núna á helstu kvikmyndasíðum og þeim fer
hiklaust fjölgangi á næstu vikum. Ég vil helst bíða með það að telja
upp bestu myndir ársins ’09 þangað til í janúar. Í staðinn finn ég
eitthvað álíka skemmtilegt, og núna vil ég endilega kafa út það sem mér
persónulega þykir áhugaverðara en að tala um bestu myndir áratugarins
(sjá þann lista hér).


.:10 VANMETNUSTU MYNDIR ÁRATUGARINS… AÐ MATI UNDIRRITAÐAR:.

Þegar ég segi vanmetin þá er ég að tala um kvikmyndir sem annað hvort
ollu vonbrigðum á meðal meirihluta áhorfenda, gagnrýnenda eða hreinlega
hröpuðu í miðasölunni.

Þegar notendur spjallsins komu með sínar bestu myndir áratugarins hér í
síðustu kom það ekki á óvart hversu margir voru með sömu titlana
(oftast The Dark Knight, Inglourious Basterds, Lord of the Rings
o.fl.). Það sem gerir þennan lista svo áhugaverðan er að hann er ólíkur
hjá nánast hverjum einasta kvikmyndaáhugamanni, og það er líka miklu
skemmtilegra að lesa rökstuðning einhvers sem fílar eitthvað sem
flestir voru ekki par hrifnir af.

10. SOUTHLAND TALES (2006)


– Hvað sögðu gagnrýnendur?

Southland Tales var slátruð á Cannes. Roger Ebert sagði m.a. að hún væri ein versta mynd sem hann hafði séð á hátíðinni. Þegar flestir gagnrýnendur tala um Southland Tales þá er það ekki í góðum orðum. Hún þótti víst vera óskiljanleg, langdregin, súr og illa uppsett.

– En áhorfendur?
Myndin hefur verið að byggja upp agnarsmáan költ-status en eftir því sem ég veit best þá fer hún rosalega í taugarnar á mörgum. Ekki skrítið svosem, óvenjuleg mynd.

– En ég?

Það er ekki erfitt að skilja hatrið gagnvart henni en ég held líka að margir hafa tekið hana fullalvarlega. Hún er algjör þvæla og greinilega meðvituð um það. Hvernig getur t.d. mynd tekið sig alvarlega í tvær sekúndur þegar hún inniheldur auglýsingarsenu sem sýnir tvo bíla vera að stunda kynlíf?? Smellið bara hér ef þið trúið mér ekki.
Ég persónulega fíla hvað myndin er ofboðslega sérstök og hugmyndarík. Það er fullt af skemmtilegum leikurum í henni og þetta ruglaða plott er að öllu leyti ófyrirsjáanlegt. Mér finnst líka rosalega djarft af Richard Kelly að gera mynd var efnislega allt öðruvísi heldur en Donnie Darko. Margir „nýir“ leikstjórar þora oft ekki að prófa nýja hluti og halda sig við það sem gerði þá fræga.

9. SEX DRIVE (2008)


– Hvað sögðu gagnrýnendur?

Klisja.

– En áhorfendur?
Erfitt að segja. Myndin fékk ömurlega aðsókn.

– En ég?
Ásamt Eurotrip er þetta einhver vanmetnasta unglingagrínmynd áratugarins. Sex Drive er engin snilld en hún er hellað fyndin og fékk alltof mikið diss frá fólki fyrirfram. Hún var dæmd sem eitthvað American Pie-wannabe en að mínu mati á hún meira erindi til þeirra sem eru hrifnir af Judd Apatow myndum. Persónurnar eru allar eðlilegar, ekki ýktar stereótýpur og leikararnir standa sig óvenju vel. James Marsden á t.d. leiksigur.


8. RUNNING SCARED
(2006)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Myndin er með 40% á RottenTomatoes (og 30% þar hjá Top Critics), sem er oftast ekki mjög jákvætt.

– En áhorfendur?

Running Scared er ein af þessum gleymdu myndum sem alltof fáir sáu. Paul Walker var heldur ekki sterkur aðdráttur þegar hann lék í mynd sem hafði ekki „Furious“ í titlinum.

En ég?
Ekkert meistaraverk en engu að síður drullugóð spennumynd sem hefur brjálaðan stíl og hrátt andrúmsloft. Hún er taugatrekkjandi, óþægileg (eins og senan þegar Vera Farmiga fer til ókunnuga hjóna. Gæsahúðin ætlaði aldrei að hverfa!) og brútal á köflum. Kíkið á hana.

7. THE MIST (2007)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Voða upp og niður skoðanir.

– En áhorfendur?

The Mist fékk ekki þá athygli sem hún átti skilið. Það var heldur ekki lengi að fréttast hvað endirinn væri spes og mörgum greinilega langaði ekki að sjá smá gamaldags B-hrollvekju þegar pyntingarklámið fannst í góðu magni.

En ég?
Ein af betri myndum ársins 2007 og hiklaust einhver ferskasta hrollvekja sem ég man eftir undanfarin ár. Handritið er líka vel unnið og ég dáist að því hvernig sagan sýnir að mannfólkið sé ekkert skárra heldur en skrímslin úti í þokunni. Endirinn er líka eitt stórt „slap in the face“ fyrir áhorfandann og ég meina það ekki á vondan hátt.

6. KISS KISS BANG BANG (2005)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Reyndar voru flestir afar ánægðir með hana.

– En áhorfendur?

Aðsóknin var vægast sagt slöpp og myndin hefur í rauninni bara ratað til þeirra sem hafa óvart uppgötvað hana.

En ég?
Ég hlæ mig alltaf máttlausan þegar ég horfi á hana. Hún er vel skrifuð og er snilldarlega borin uppi af Robert Downey Jr. og Val Kilmer.

5. LUCKY NUMBER SLEVIN (2006)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Skoðanir voru rosalega skiptar en almennt voru flestir sem sögðu að hún væri „ekkert spes.“

– En áhorfendur?

Svipað og gerðist með Boondock Saints þá voru áhorfendur afskaplega ósammála gagnrýnendum og hefur Lucky Number Slevin verið almennt í góðu áliti meðal fólks. Myndin entist samt stutt í bíó og hefur ekki fengið mikla athygli, þrátt fyrir sterkan hóp af leikurum.

En ég?
Slevin þykir mér vera rugl góð afþreying sem smellpassar í hóp Tarantino-Light mynda. Góðir leikarar, skemmtilegur söguþráður, „offbeat“ húmor og flottur stíll.

4. MEAN CREEK (2004)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Þeir voru mjög hrifnir, þótt mér fannst hún hafa mikið gleymst þegar kom að því að velja bestu myndir ársins 2004.


– En áhorfendur?

Enn og aftur: Of fáir sáu hana.

En ég?
Frábær lítil karakterstúdía að mínu mati sem vekur mann til umhugsunar. Ef ég hefði fengið að ráða (bear with me!) hefði þessi farið beint á Óskarinn.

3. INTOLERABLE CRUELTY (2003)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Voða misjafnt. Mörgum fannst hún góð bara vegna þess að hún var Coen-mynd (og gagnrýnendur yfirleitt dýrka Coen-bræður) en maður hefur eiginlega ekkert heyrt minnst á hana síðan hún kom út.


– En áhorfendur?

Almennt er hún talin ein af lakari Coen-myndunum. Ég held reyndar að fólk hafi búist við mjög standard rómantískri gamanmynd, enda hafði hún glatað plakat sem gefur ekkert annað í skyn og tvo af heitari leikurum sinnar kynslóðar.

En ég?
Intolerable Cruelty kemur mér alltaf í gott skap! Hún er bara eitthvað svo villt og óvenjuleg. Húmorinn er ekkert síðri en í öðrum Coen-myndum (sem líka þýðir að ekki allir fatta hann) og framvindan er dásamlega óhefðbundin.

(SPOILER)

Það er heldur ekki oft þar sem maður sér rómantíska gamanmynd þar sem karlmaðurinn reynir að drepa konuna sem hann hrífst af, mistekst en endar samt með henni í lokin.

2. SUNSHINE (2007)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Með langflestum umfjöllunum fylgdi eitt risastórt „EN.“ Gagnrýnendum fannst myndin góð en þeir voru ekki mjög hrifnir af seinni helmingnum.

– En áhorfendur?

Svipað og gagnrýnendur sögðu.

En ég?
Topp sci-fi mynd ef þið spyrjið mig. Handritið gott, leikstjórnin traust, leikurinn frábær og spennan á köflum óbærileg. Mér fannst seinni helmingurinn („psycho-killer“ hlutinn) virka ótrúlega vel við myndina. Ég efa að myndin hefði náð að halda sama plottinu og í fyrri helmingnum út alla lengdina án þess að missa dampinn og spennuna.

1. 25TH HOUR (2002)

– Hvað sögðu gagnrýnendur?
Góð ummæli en ekkert tryllt lof.


– En áhorfendur?

Jákvætt umtal en ekkert tryllt lof.

En ég?
25th Hour er vanmetnasta mynd áratugarins skv. minni skoðun, sem er skrítið því ég er ekkert of hrifinn af Spike Lee. Myndin átti svo miklu meira skilið heldur en hún fékk. Ég hefði skellt Óskarstilnefningu á allan hópinn; Edward Norton hefur sjaldan verið betri (stóra „fuck you“ ræðan hans er ógleymanleg), Rosario Dawson er æðisleg, Philip Seymour Hoffman sterkur að venju, Brian Cox algjör meistari og Barry Pepper er ótrúlega eftirminnilegur. Ég man ekki eftir honum betri en þegar hann lemur Norton í klessu.

Handritið er algjör snilld og samtölin virka á sama hátt og þau geraa í bestu Tarantino myndunum. Persónur sitja og ræða um hversdagslega hluti en maður hangir á hverju einasta orði sem þær segja. Ég gef líka ræmunni sérstakt hrós fyrir geggjaða tónlist og ber þar helst að nefna opnunarstefið.

Enginn má missa af þessari mynd! Hún er skylduáhorf.

Fleiri vanmetnar myndir (runner-up):

– Boiler Room (2000)
– Finding Forrester (2000)
– Shaolin Soccer (2001)
– Tape (2001)
– 24 Hour Party People (2002)
– Equilibrium (2002)

– Punch-Drunk Love (2002)

– Down with Love (2003)

– Hulk (2003)
– Wonderful Days (2003)

– The Butterfly Effect: Director’s Cut (2004)
– Sky Captain and the World of Tomorrow (2004)

– Superman Returns (2006)
– Black Snake Moan (2007)
– The Darjeeling Limited (2007)
– Choke (2008)
– Speed Racer (2008)
– Watchmen (2009)

og margar, margar fleiri.

Hverjar eru vanmetnustu myndir áratugarins að þínu mati? og af hverju finnst þér þær vanmetnar?