Þrumuguðinn Þór í Marvel ofurhetjumyndinni Thor: Love and Thunder þaut alla leið á topp íslenska bíóaðsóknarlistans um síðustu helgi, rétt eins og hann gerði í Bandaríkjunum og í fleiri löndum.
Tekjur myndarinnar, sem er með Chris Hemsworth í titilhlutverkinu, námu tæpum fjórtán milljónum króna og hvorki fleiri né færri en 7.675 manns mættu í bíó til að berja goðið augum.
Í öðru sæti listans varð toppmynd síðustu viku, Skósveinarnir: Gru rís upp, með 9,7 milljónir króna í tekjur og 7.421 áhorfanda.
Þriðja sætið féll svo myndinni sem var í öðru sæti í síðustu viku í té, hinni ævisögulegu og stórskemmtilegu Elvis.
Top Gun tekjuhæst
Tekjuhæsta kvikmyndin í bíó um þessar mundir er Top Gun: Maverick með tæpar 50,5 milljónir króna í tekjur, en eins og við sögðum frá fyrr í vikunni er myndin sú tekjuhæsta í heiminum það sem af er þessu ári með yfir einn milljarð Bandaríkjadala í greiddan aðgangseyri.
Sjáðu topplistann í heild sinni hér fyrir neðan: