Fyrsta stiklan úr hasargamanmyndinni This Means War er dottin á netið. Myndin er fyrsta mynd leikstjórans McG síðan að Terminator Salvation olli peningamönnum í Hollywood og nördum um allan heim vonbrigðum árið 2009. Myndin skartar tveimur rísandi stjörnum í aðalhlutverkum, þeim Tom Hardy og Chris Pine, og einni hnígandi, henni Reese Witherspoon. Pine og Hardy leika bestu vini og samstarfsfélaga hjá leyniþjónustunni CIA, sem falla óvænt fyrir sömu konunni. Þeir ákveða að láta hana ekki vita af tengslum sínum en setja upp leikreglur sem miða að því að hún muni velja þann sem henni lýst best á. Að sjálfsögðu verða þessar reglur þverbrotnar er fyrrum félagarnir keppast um kvenmanninn.
Myndin er byggð á handriti sem sveimað hefur um í það minnsta áratug, og var árið 2001 á teikniborðinu útgáfa með Martin Lawrence og Chris Rock í aðalhlutverkunum. Þó að þetta verði seint einhver verðlaunamynd líta þeir Hardy og Pine allavega út fyrir að hafa það sekmmtilegt, og halda góðri spennu á milli sín. McG hefur reyndar ekki gert góða mynd síðan, tja, aldrei, nema kannski ef maður teldi fyrstu Charlies Angels myndina sem mig minnir að hægt hafi verið að hafa gaman af. En ef hann á að vera að gera kvikmyndir, þá er þetta akkúrat sú gerð kvikmynda sem hentar honum. Góð þróun að Brett Ratner sé að gera Tower Heist og McG þessa – halda þeim uppteknum við miðlungs gaman/spennumyndir, og þá eyðileggja þeir ekki fleiri nördaseríur á meðan. Hér er stiklan: