Þín eigin þjóðsaga að kvikmynd: „Þetta er heljarinnar stórt verkefni“

Bræðurnir Guðni Líndal og Ævar Þór Benediktssynir vinna um þessar mundir hörðum höndum að kvikmynd sem byggð er á metsölubókinni „Þín eigin þjóðsaga“. Myndin er komin með handritsstyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og komst verkefnið einnig inn í Script Lab hjá hátíðinni Cinekid.

Cinekid-hátíðin er ein helsta margmiðlunarhátíð heims fyrir barnaefni og var haldin í fyrsta sinn fyrir rúmum 30 árum. Þátttakendur kynna verkefni sín á fundum með sölufulltrúum, dreifingaraðilum, innkaupastjórum og framleiðendum og keppa að meðaltali 15 barnakvikmyndir árlega um The Cinekid Lion verðlaunin eftirsóttu.

Framleiðsla Þinnar eigin þjóðsögu verður í höndum þeirra Þóris Snæs Sigurjónssonar, Skúla Malmquist og Arnars Benjamíns Kristjánssonar hjá Zik Zak en bókin, eins og margir vita, er skrifuð af Ævari Þór.

Bækur Ævars Þórs Benediktssonar, þar sem lesandinn ræður því hvað gerist næst, hafa notið gífurlegra vinsælda meðal yngri lesenda og eru orðnar sex (bráðum sjö) talsins, en einnig hafa verið gerð tvö leikrit sem fengið hafa góðar undirtektir.

Í anda Jumanji og The Goonies

Í samtali við Kvikmyndir.is segir Guðni Líndal að handrit kvikmyndarinnar sé enn á þróunarstigi en gífurlegur spenningur ríki fyrir verkefninu. Líkt og greint hefur verið frá áður stóð upphaflega til að þróa þína eigin þjóðsögu sem sjónvarpsseríu en Guðni segir að hefðbundin kvikmynd væri rétta leiðin fyrir verkefnið.

Spurður að því hvort útkoman verði í líkingu við hina víðfrægu Bandersnatch svarar Guðni því neitandi. Þetta verður venjuleg bíómynd í stíl við Jumanji og The Goonies,“ segir hann. 

Þetta er heljarinnar stórt verkefni. Þetta er risastór fantasía og það verður ekkert grín að gera þetta. Þetta er klárlega lang stærsta verkefni sem við höfum komið að, en við bræðurnir höfum talsverða reynslu af að skrifa ævintýri og höfum gríðarlega trú á verkefninu. Ég get ekki sagt mikið um söguna að svo stöddu annað en að hún er hrikalega skemmtileg og kvikmyndin verður ólík öllum öðrum íslenskum myndum. Þannig að við förum inn í CineKid Script Lab með það að markmiði að gera handritið eins gott og mögulegt er áður en við dembum okkur í djúpu laugina. Því laugin er ansi djúp og hver veit hvaða furðuskepnur leynast þar.