Variety kvikmyndaritið segir frá því að Eric Heisserer hafi verið ráðinn sem handritshöfundur nýrrar myndar sem New Line kvikmyndafyrirtækið er að fara að gera, The Sandman, með Joseph Gordon-Levitt í bæði aðalhlutverki, og sem leikstjóra.
Upphaflega fór verkefnið í gang árið 2013, en þá ætlaði The Dark Knight handritshöfundurinn David Goyer, að skrifa handritið eftir samnefndri DC Comics teiknimyndasögu. Á þeim tíma hafði Gordon-Levitt leikstýrt sinni fyrstu mynd, Don Jon, og var að leita sér að nýju verkefni.
75 tölublöð af teiknimyndasögunni The Sandman voru upphaflega gefin út á árunum 1989 til 1996. Aðalhetjan er persónan Dream, einnig þekktur sem the Lord of Dreams, Morpheus, Oneiros, the Shaper, the Shaper of Form, Lord of the Dreaming, the Dream King, Dream-Sneak, Dream Cat, Murphy, Kai’ckul og Lord L’Zoril.
Í byrjun seríunnar er persónan Morpheus handsömuð og henni haldið fanginni í 70 ár áður en henni tekst að flýja, og byggja upp veldi sitt á ný.
Auk þess að hafa unnið með bræðrunum Chad og Carey Hayes við myndina The Conjuring 2, þá hefur Heisserer skrifað myndir eins og A Nightmare on Elm Street, Final Destination 5, Lights Out og The Story of Your Life, með Amy Adams í aðalhlutverkinu og Denis Villeneuve sem leikstjóra.
Á síðasta ári lék Gordon-Levitt í The Walk og The Night Before, og sést bráðum ásamt Shailene Woodley í mynd Oliver Stone, Snowden.