Samkvæmt nýrri frétt frá AP þá spá menn því nú að The Expandables muni sigla beint á topp bandaríska aðsóknarlistans um helgina með amk. 30 milljónir Bandaríkjadala í aðgangseyri. Eins og fram kemur í fréttinni þá verða það tvær ólíkar myndir sem munu væntanlega berjast á toppnum um þessa frumsýningarhelgi, The Expandables ( harðsoðin kallamynd ) og Eat Pray Love, sem er öll nokkuð mýkri og viðkvæmnislegri en The Expandables, enda með Juliu Roberts í aðalhlutverki.
Beðið er eftir þeirri mynd með þónokkri eftirvæntingu vestanhafs, en myndin er gerð eftir metsöluskáldsögu Elizabeth Gilbert. Aðalkarlhlutverkið er í höndum Javier Bardem.
Spámennirnir hjá AP fréttastofunni telja að Scott Pilgrim vs. The World muni fylgja fast á hæla Juliu Roberts, en talið er að enn sé nokkur kraftur eftir í toppmynd síðustu helgar, The Other Guys, með Will Ferrel, og hún muni stríða nýju myndunum eitthvað, að ógleymdri Inception, sem er enn á topp tíu listanum og rakar inn seðlunum.