Franski César verðlaunahafinn Omar Sy, sem sló í gegn í frönsku myndinni Intouchables, bætir nú sífellt fleiri rósum í hnappagatið. Nú síðast þá landaði hann hlutverki í nýju Jurassic World endurræsingunni.
Sy tilkynnti þetta sjálfur á Twitter og sagðist vera „aðdáandi myndanna frá upphafi“ og vera „mjög stoltur af því að vera hluti af leikaraliði Jurassic World.“
Leikstjórinn, Colin Trevorrow, lét ekki sitt eftir liggja og bauð Sy velkominn til starfa á Twitter. Ekki er búið að gefa upp hvert hlutverk Sy verður.
Helstu leikarar aðrir eru Chris Pratt, Idris Elba, Bryce Dallas Howard, Vincent D’Onofrio, Jake Johnson og Irrfan Khan.
Næsta Hollywood mynd Sy er X Men: Days of Future Past og þá hefur hann samþykkt að leika í Candy Store eftir Stephen Gaghan. Í haust má síðan berja hann augum í nýjustu mynd Intouchables leikstjórans Eric Toledano og Olivier Nakache, Samba.