Fjórða myndin um Sveppa og félaga, Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum, hefur slegið rækilega í gegn hér á landi. Myndin heldur sér sem fastast á toppi listans yfir aðsóknarmestu kvikmyndirnar í kvikmyndahúsum landsins aðra vikuna í röð.
Opnunarhelgi myndarinnar var sú stærsta á árinu 2014 og önnur stærsta opnunin heilt yfir á íslenskri kvikmynd. Kvikmyndin hlaut frábæra aðsókn um allt land og á landsbyggðinni féllu einnig nokkur met.
Í myndinni komast vinirnir Sveppi og Villi að því að erkióvinur þeirra hyggur enn á landsyfirráð og hefur í þetta sinn byggt alveg ægilega dómsdagsvél sem getur komið af stað jarðskjálftum og eldgosum.
Í öðru sæti listans er geimferðamyndin Interstellar. Myndin er leikstýrð af Christopher Nolan sem áður hefur gert myndir á borð við The Dark Knight og Memento. Interstellar skartar stjörnum á borð við Matthew McConaughey, Anne Hathaway, Jessica Chastain, Michael Caine, Casey Affleck og Topher Grace. Myndin fjallar um ævintýri hóps könnuða sem notfæra sér ormagöng í geimnum til að fara lengra en menn hafa nokkru sinni farið áður í geimferðum, og geta með því móti farið á milli stjörnukerfa.
Spennumyndin John Wick, með Keanu Reeves kemur á eftir í þriðja sæti. Leigumorðinginn John Wick ætlar að ná fram hefndum gegn ótíndum glæpamönnum þegar þeir svipta hann því sem honum er dýrmætast. Þá komast glæpamennirnir að því að þeir stönguðust á við kolrangan mann. Hinn þaulreyndi áhættuleikstjóri Chad Stahelski stýrir hasarveislunni og Elísabet Ronaldsdóttir (Djúpið, Contraband) klippir myndina.