Ákvörðun Warner Bros og Peter Jackson að gera The Hobbit að þríleik hefur vakið spennu hjá flestum aðdáendum ævintýraheims J.R.R. Tolkien. Þó eru sumir sem eru ekki par sáttir með þessa ákvörðun og færa sæmileg rök fyrir því.
Ljóst er að The Hobbit: An Unexpected Journey verður frumsýnd 26.desember 2012 á Íslandi og The Hobbit: There And Back Again verður frumsýnd jólin 2013 (13.desember vestanhafs en óljóst er hvenær hún verður frumsýnd hér heima). Það sem er hvað óvenjulegast við þennan þríleik er að þriðja Hobbit myndin verður sumarmyndin árið 2014! Fyrir þá sem tengja LOTR þríleikinn við jólin er erfitt að kyngja þessu.
Stærstu rök aðdáenda fyrir því að þessi þríleikur sé af hinu illa er að söguþráður skáldsögunnar The Hobbit sé einfaldlega ekki nógu víðamikill, enda er bókin aðeins 300 blaðsíður. Til samanburðar má nefna að Lord Of the Rings bækurnar eru um 1100 blaðsíður að lengd. Aðrir halda því fram að Jackson sé undir mikilli pressu frá Warner Bros og að sú pressa muni koma niður á listrænni framsetningu myndanna fyrst hann var þvingaður til að gera Hobbitann að þríleik. Sumir aðdáendur ganga svo langt að stinga upp á því að þriðja myndin ætti að bera nafnið The Hobbit: Cashing In, enda er ljóst að Warner Bros mun græða grimmt á þríleiknum.
Enn fleiri eru ósáttir við það hversu óljós framganga beggja síðari myndanna er. Warner Bros eiga enn eftir að finna nafn á þriðju myndina, en orðrómar eru um að Riddles in the Dark eða Desolation of Smaug gætu orðið fyrir valinu – en Warner Bros hafa skráð veftitla fyrir þau nöfn nú þegar. Warner Bros hafa einnig gefið út að nafn The Hobbit: There And Back Again gæti breyst. Peter Jackson hefur sagt að miðjumyndin verði ekki ,,brú“ á milli mynda eitt og þrjú, heldur sjálfstæð. Þetta hefur ýtt undir þá orðróma að Jackson og félagar séu að koma með utanaðkomandi efni, þ.e. efni utan skáldsögunnar The Hobbit, til að fylla í eyðurnar. Þá eru aðrir farnir að kalla Peter Jackson ,,næsta George Lucas“, móðgun sem flestir kvikmyndanördar ættu að skilja, en móðganirnar gerast varla grófari að mati undirritaðs.
Einnig eru til þeir sem eru sammála syni J.R.R. Tolkien, en hann ber nafnið Christopher Tolkien. Chris er á því að aldrei hefði átt að gera kvikmyndir eftir LOTR bókunum og hann er á því að ekki eigi að gera mynd byggða á The Hobbit heldur. Hann lítur á það sem vanvirðingu að búa til ,,spennumynd fyrir fólk á aldrinum 15 til 25 ára byggða á bókunum“ líkt og hann orðar það.
Þrátt fyrir að aðdáendur um allan heim séu stressaðir fyrir útkomu þríleiksins gæti ég varla verið spenntari. Ég gef lítið fyrir þennan hræðsluáróður og treysti Peter Jackson til að detta ekki í sömu gryfju og George Lucas og eyðileggja eitthvað sem okkur þykir öllum vænt um (Jar Jar Binks má brenna í helvíti). Hvað finnst þér, lesandi góður ? Ertu jafn bjartsýnn og ég eða ertu svartsýnn á að Jackson takist að gera góðan þríleik úr 300 blaðsíðna barnabók ?