Star Trek og Star Wars leikstjórinn J.J. Abrams hefur nú lýst yfir að hann muni ekki leikstýra Star Trek 3. Leikstjórinn sagði í samtali við vefsíðuna Collider í tilefni af útgáfu Star Trek Into Darkness á Blu-ray: „Þetta er frekar fúlt. En ég get sagt að ég mun framleiða myndina. Hver sem kemur til með að leikstýra henni verður einhver sem á auðvelt með að vinna með leikhópnum og tökuliðinu. Ég er lánsamur að hafa verið hluti af þessu, og núna finnst mér nákvæmlega rétti tíminn til að hleypa öðrum að, og gera sína hluti. Ég vil alls ekki að viðkomandi komi og endurtaki það sem ég hef gert. Við viljum fá einhvern sem kemur með eigin sýn á þetta. Ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu, en á sama tíma afbrýðisamur út í hvern þann sem það verður.“