Roman Polanski og Coen-bræðurnir eru á meðal 35 leikstjóra sem hafa búið til stuttmyndir í tilefni af sextíu ára afmæli kvikmyndahátíðarinnar í Cannes.
Hver mynd er þriggja mínútna löng og fjallar um það að fara í bíó. Verða þær sýndar á næstu Cannes-hátíð í maí.
Á meðal fleiri leikstjóra sem taka þátt eru Lars Von Trier, Wim Wenders, Alejandro Gonzales Inarritu, Ken Loach og David Cronenberg. Gerist mynd Cronenberg inni á baðherbergi.
Enginn leikstjóranna vissi nokkuð um söguþræði hinna stuttmyndanna, sagði skipuleggjandi Cannes-hátíðarinnar, Gilles Jacob. Myndirnar verða sýndar hinn 20. maí. Hátíðin sjálf stendur yfir frá 16. til 27. maí. Formaður dómnefndar verður breski leikstjórinn Stephen Frears.

