Stuttmyndakeppnin Ljósvakaljóð verður haldin í Ráðhúsi Reykjavíkjur þann 30. september næstkomandi. Keppnin er haldin í samvinnu við Eymundsson, Alþjóða kvikmyndahátíðina, Reykjavíkurborg og ZikZak filmworks.
Keppnin er fyrsti stóri vettvangurinn fyrir unga kvikmyndagerðarmenn til að koma stuttmyndum sínum á framfæri síðan keppnin Stuttmyndadagar lagði upp laupana í upphafi áratugarins.
Á hádegi laugardaginn 30. september hefst röð fyrirlestra í tengslum við keppnina, þar sem þekktir ungir kvikmyndagerðarmenn (Dagur Kári Pétursson, Skúli Malmquist og Ragnar Bragason) sýna brot af verkum sínum og ræða ýmsa þætti kvikmyndagerðar. Þetta er kjörið tækifæri fyrir áhugasama að kynna sér kvikmyndaiðnaðinn og þeim að kostnaðarlausu.
Valið verður úr bestu innsendu myndunum og þær sýndar seinni part dags. Dómnefnd skipuð fagaðilum úr kvikmyndabransanum mun kynna úrslitin og veita bestu myndinni verðlaun. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Seinasti dagur til að skila inn innsendum stuttmyndum var þriðjudagurinn 26. september.
Keppnin er fyrir aldurshópinn 15-25 ára og mega myndir ekki vera lengri en u.þ.b. 20 mínútur á lengd og ekki eldri en tveggja ára. Allar gerðir stuttmynda eru gjaldgengar.

