„Stríðið er hafið“, segir foringi apanna, Caesar, í fyrstu kitlunni fyrir þriðju Apaplánetumyndina, War for the Planet of the Apes.
Kitlan var frumsýnd í gær í tilefni af Comic Con hátíðinni í New York nú um helgina, þar sem aðstandendur munu koma fram og tala, og birt verður fyrsta alvöru myndefnið úr myndinni.
Í kitlunni, sem er 46 sekúndna löng, birtist Caesar smátt og smátt á meðan snjó eða ösku rignir á hann, og rödd hans ( Andy Serkis ) varar við komandi hamförum: „Þið verðið að fara áður en átökin hefjast,“ segir Caesar í útgáfu af kveðjuræðu hans til Malcolm ( Jason Clarke ) úr lokakafla síðustu myndar, Dawn of the Planet of the Apes. „Mér þykir fyrir því. Stríðið er hafið.“
Í þessari mynd eigast þeir við ásamt herjum sínum, Caesar og Colonel, sem Woody Harrelson leikur, en átökin verða blóðug og framtíð tegundanna og Jarðarinnar munu ráðast.
Leikstjóri er Cloverfield leikstjórinn Matt Reeves og helstu leikarar eru Serkis, Harrelson, Gabriel Chavarria og Steve Zahn.
Dawn of the Planet of the Apes, sem var framhald Rise of the Planet of the Apes frá árinu 2011, þénaði meira en 710 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim árið 2014.
Nýja myndin kemur í bíó 14. júlí 2017.
Sjáðu kitluna hér fyrir neðan: