Fyrsta kitlan úr Netflix sjónvarpsþáttunum Stranger Things 2 var frumsýnd í auglýsingahléi ofurskálarinnar ( e. Super Bowl ), úrslitaleik bandaríska fótboltans, í gær.
Fyrsta sería þessara þátta sló í gegn í fyrra, en serían er vísindatryllir, þar sem ungir leikarar fara með helstu hlutverk auk Vinona Ryder.
Um helgina birtum við fyrstu ljósmynd úr seríunni þar sem við sáum leikarana í Ghostbusters búningum á Hrekkjavökunni.
Þættirnir gerast árið 1984, en fátt er annað vitað um söguþráðinn nema það sem framleiðandinn Shawn Levy lét hafa eftir sér, að óvætturinn Demogorgon væri á bak og burt, en hið illa væri enn á kreiki.
Allir helstu leikarar fyrri þáttaraðarinnar snúa aftur í annarri þáttaröð, þar á meðal Finn Wolfhard (Mike Wheeler), Millie Bobby Brown (Eleven), Gaten Matarazzo (Dustin Henderson), Caleb McLaughlin (Lucas Sinclair), Natalia Dyer (Nancy Wheeler) og Charlie Heaton (Jonathan Byers).
Því miður mun Barb, sem Shannon Purser leikur, ekki snúa aftur, enda hefur því verið lýst yfir oftar en einu sinni að hún sé látin, þó menn vilji reyndar trúa því að hún muni koma við sögu í einhverju formi í nýju þáttaröðinni.
Winona Ryder snýr aftur sem Joyce Byers og David Harbour snýr sömuleiðis aftur sem lögreglustjórinn Hopper.
Af nýjum leikurum má nefna þau Sink og Dacre Montgomery, sem leika systkinin Max og Billy, og The Goonies leikarann Sean Astin sem leikur útvarpsstjóra sem er einnig nýi kærasti Joyce.
Aliens leikarinn Paul Reiser leikur fulltrúa sem kemur í bæinn til að rannsaka það sem gerðist í fyrstu þáttaröðinni.
Að síðustu bera að nefna leikkonuna Linnea Berthelsen sem leikur Roman, unga konu sem tengist hinum dularfullu atburðum í fyrstu þáttaröðinni.
Kíktu á kitluna hér fyrir neðan: