Stöðva undirbúning MI 6

Gert hefur verið hlé á undirbúningi spennumyndarinnar Mission Impossible 6, samkvæmt frétt Deadline, en ekki verður tekinn upp þráðurinn að nýju fyrr en búið er að semja um launamál við aðalstjörnu myndarinnar, Tom Cruise.

mission-impossible-rogue-nation

Paramount Pictures, sem framleiðir myndina, var búið að ráða 15-20 manns í vinnu í Lundúnum til að byrja vinnu við myndina, eftir að handritshöfundurinn og leikstjórinn Christopher McQuirre og Cruise voru búnir að leggja drögin að henni.

Fólkið í Lundúnum var nýbyrjað að vinna við hönnun á tæknibrellum, en í dag var þeim sagt að hætta störfum, samkvæmt heimildum Deadline.

Nokkrum sögum fer af ástæðum þessa, en eins og fyrr sagði tengist það líklega launamálum Cruise, en óskað er eftir því að hann og fleiri lækki launakröfur sínar.

Hinn vinkillinn er mögulega að Cruise vilji að Paramount borgi það sama og Universal borgaði honum fyrir leik sinn í The Mummy, en Paramount vilji borga svipað og hann fékk fyrir síðustu Mission Impossible mynd. 

Litið er á þetta sem smávægilega truflun, enda sé ekki möguleiki að menn ætli að hætta við myndina, og heldur er ekki möguleiki að gera myndina án Cruise. Stefnt er að því að hefja tökur eftir áramót ef samningar nást fljótlega, en samkvæmt Deadline, þá eru kvikmyndaverin með varann á sér til að kostnaður fari ekki úr böndunum.

Síðasta Mission Impossible mynd, Mission Impossible: Rogue Nation, þénaði 682 milljónir Bandaríkjadala um allan heim, en kostnaður var nokkru minni, eða 150 milljónir dala.