Stjörnum prýtt Búdapest hótel – Fyrsta stikla

Fyrsta stiklan er komin út fyrir nýjustu mynd leikstjórans Wes Anderson ( Moonrise Kingdom, Rushmore, The Royal Tenenbaums ).

grand_budapest_header-620x476

Síðasta mynd Anderson, Moonrise Kingdom naut mikilla vinsælda og þénaði meira en 45 milljónir Bandaríkjadala í bíó í Bandaríkjunum. The Grand Budapest Hotel verður frumsýnd í mars nk. en verður fyrir þann tíma sýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Það er valinn maður í hverju rúmi í myndinni, en með helstu hlutverk fara Ralph Fiennes, Jude Law, Bill Murray, Jason Schwartzman, Saoirse Ronan, F. Murray Abraham, Jeff Goldblum, Willem Dafoe, Adrien Brody, Owen Wilson, Edward Norton, Harvey Keitel, Léa Seydoux og Mathieu Amalric, en eins og aðdáendur Anderson sjá eru þarna margir þeir sömu leikarar og eru í fyrri myndum leikstjórans.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan:

Myndin segir frá goðsagnakenndum dyraverði á frægu evrópsku hóteli á árunum á milli fyrri og seinni heimsstyrjaldarinnar. Sagt er frá vináttu hans við ungan starfsmann sem verður sérlegur skjólstæðingur hans. Inn í söguna blandast þjófnaður og endurheimt á ómetanlegu endurreisnarmálverki, ásamt baráttu um ótrúlegan fjölskylduauð og skyndilegan uppgang sem breytti Evrópu á fyrri helmingi tuttugustu aldarinnar.

grand_budapest_hotel_poster-620x918

The Grand Budapest Hotel verður frumsýnd 7. mars, 2014.