Stundum vildi ég að ég gæti haft meira gaman af Underworld-myndunum, en það gengur ekki alltaf neitt voða vel, því oftast líður mér eins og menntskælingi á grunnskólaballi þegar ég horfi á þær, en það þýðir svosem ekki að ég kunni ekki að meta einfaldar og heiladauðar „genre-hasarmyndir.“ Eða hvað?
Það verður auðvitað aldrei sagt annað en að þessi sería taki eitthvað eins og Twilight alveg í görnina einfaldlega vegna þess að hún er blóðugri og stílískari. Með öðrum orðum mætti segja að skepurnar í Underworld hegða sér eins og skepnur eiga að gera, en aftur á móti er samanburðurinn nokkuð tilgangslaus vegna þess að þegar uppi er staðið er þetta bara sitthvor froðan matreidd handa sitthvorum týpum af unglingum. Báðar seríurnar missa marks á ólíkan hátt og þjást fyrir ákveðinn hallærisleika. Ég gef samt Selene og félögum yfirhöndina vegna þess að þau eru að minnsta kosti ekki að reyna mikið meira en að skemmta markhópi sínum með látum og subbuskap, eða allavega þangað til að engar heilasellur eru eftir.
Í Underworld-myndunum snýst allt um að pósa með stút á vörum, labba eða gera yfirdrifna hluti í slow motion-skotum og kaffæra efnilegum söguþráðum í píndum exposition-útskýringum. Stundum eru hlutirnir stafaðir svo grimmt út að maður dettur alveg út og byrjar að líða eins og allt efnið sé framleitt fyrir 14 ára tölvuleikjanörda og goth-stelpur, þrátt fyrir að aldurstakmarkið reyni að segja annað. Ég viðurkenni samt að fyrsta myndin hafi haldið áhuga mínum því hún hafði að minnsta kosti atburðarás sem byggðist ekki aðeins á hasar. Sú mynd reyndi að vera með lagskiptan söguþráð með óvæntum fléttum, og þrátt fyrir brösulega unnið handrit, þá tókst henni að gera það sem hún ætlaði sér.
Önnur myndin hefði átt að gera eitthvað svipað, en hún sagði strax bara: „Fokk it,“ og reyndi að troða eins miklum hasar inn í 100 mínútur og hún gat ásamt því að vefja hann í kringum bjánalegt handrit með söguþræði sem var orðinn að sjokkerandi vitleysu. Flottur hasar svosem, enda fékk leikstjóri myndarinnar að gera heila Die Hard-mynd beint eftirá, en mikið svakalega var manni orðið sama um allt og alla. Í beinu framhaldi kom svo tilgangslaus prequel-mynd sem a.m.k. reyndi að segja einhverja sögu þetta skiptið og hafði tvær drullugóðar frammistöður frá Michael Sheen og Bill Nighy. Myndin var samt ódýr, klunnalega samsett og sagði manni ekkert nýtt á endanum, sem gerði hana voða auðgleymda.
Ef Rise of the Lycans var „núllta“ myndin, þá býst ég við að Underworld: Awakening sé sú þriðja. Það er reyndar óvenju margt sem ég get hrósað myndinni fyrir og í dágóðan tíma hélt ég að ég væri að horfa á bestu/skástu myndina í seríunni síðan sú fyrsta kom út, en svo gerðist einmitt það sem ég var hræddur um að myndi gerast. Fyrsti þriðjungurinn á þessari mynd er ansi sterkur, þar sem hún fer af stað á rakettuhraða og stoppar mjög sjaldan nema bara rétt svo til að fylla í eyðurnar. Hún heldur ágætlega áhuga manns í kringum miðbikið einfaldlega vegna þess að leikstjórarnir (sem í þessu tilfelli eru Svíarnir Måns Mårlind og Björn Stein) hafa engan áhuga á öðru en brjáluðum hasar, og ég var dálítið að digga það. Svo einhvers staðar á lokahálftímanum byrjar myndin að missa allt flugið og fer þvælunni í handritinu svo hratt fjölgandi að það tekur á taugarnar að reyna að sýna þessu áhuga. Ef myndinni hefði tekist að halda dampi út þessar 80 mínútur og komið með almennilegan endi á söguna, þá hefði ég vafalaust komið út tryllt ánægður, eða allavega verið líklegri til þess.
Sequel bait-endirinn bætti heldur ekki úr neinu og hann gerði mig bara pirraðri eftir að ég sá hversu asnaleg framlengingin var á upphafi myndarinnar til að byrja með. Önnur Underworld-myndin virtist hafa mjög eðlilegan endi sem erfitt væri að byggja ofan á án þess að gera það á þvingandi máta, en strax í upphafi er það nákvæmlega það sem þessi mynd gerir. Sturlaða flæðið fær mann sem betur fer til að hugsa minna um það, en svo þegar endirinn stillir sér þannig upp að áhorfandinn fær ekki meira fyrr en í „næstu“ umferð, þá kemur ekki bara upp kjánahrollur, heldur ógeðfelldur keimur af Resident Evil-myndunum.
(ATH. vægir spoilerar í eftirfarandi efnisgrein – hoppið yfir hana ef þið viljið ekki vita neitt sem gæti hugsanlega eyðilagt fyrir ykkur)
Það sem gerir þessa mynd að soddan gagnslausri framlengingu er einfaldlega þróunin á aðal(kven)hetjunni Selene. Í lokin á síðustu mynd var hún farin að öðlast algjöra ofurmannlega krafta, sem verða ekkert annað en hallærislegir ef heil önnur bíómynd ætlar sér að mjólka þá. Í Underworld: Awakening er Selene ekki lengur sú sama og hún var í fyrstu myndinni. Langt frá því. Hún er meira lík óþolandi, ofbeldisfullu ofurmódelunum sem Milla Jovovich hefur leikið í gegnum tíðina. Persóna hennar getur nánast ALLT (kraftaverk meðtalin) og veikleikar eru varla sjáanlegir, og það drepur spennuna samstundis og líka gamanið, sérstaklega þegar manni fer að líða eins og ofurkraftarnir hjá Selene séu frekar notaðir sem handritsredding og eitthvað sem unglingum finnst vera kúl í stað þess að kalla þetta eðlilega þróun hjá henni. Myndin var semsagt óbeint að segja mér að ég ætti engan veginn að taka þessa persónu alvarlega, en myndin vill samt að við höldum með henni. Hún gerir auðvitað svala hluti (sérstaklega í lokin) en ég vil helst horfa á Selene sem persónu. Ekki tölvuleikjaútgáfu af henni sem getur skyndilega læknað aðra (!).
Það virðist samt fara afar vel um Kate Beckinsale því hún er sú eina sem er ekki flöt og ósannfærandi eins og langflestir aðrir í myndinni. Augljóslega er hún á einhverri sjálfsstýringu því leikstjórarnir sýna leikurunum voða lítinn áhuga og mætti halda að hver sé bara að reyna að redda sjálfum sér. Svíarnir vita samt hvar mikilvægi fókusinn liggur og þeir sjá til þess að þröngi (yndislegi!) leðurgallinn hennar Beckinsale hafi meiri forgang heldur en frammistaða hennar. Það er næstum því eins og myndavélin sé alltaf að reyna að komast á milli lappanna á henni. Það kemur lítið á óvart að Len Weisman, eiginmaður Kate (og leikstjóri fyrstu tveggja myndanna), sé einn af framleiðendunum.
Söguþráðurinn hefur að vísu grunnhugmynd sem ég er nokkuð hrifinn af, þar sem mannkynið veit af tilvist vampíra og varúlfa og er allt farið til helvítis í kjölfarið, með óvinum fjölgandi úr öllum áttum. Það eru margar sniðugar áttir sem farið er með þetta, en svo leysist þetta allt upp með áhugalausri framvindu. Þessi Underworld-sería hefur alltaf virkað voða fljótfær með útfærslur á hugmyndum sínum. Handritin virka oftast eins og þau séu sett saman án yfirferðar og framleiðslan angar aldrei af meiri metnaði en að búa til rafmagnaðan hasar, með reglulegum pósum og vírahoppum, sem heppnast misjafnlega oft.
Leikstjórar Underworld: Awakening tóku rétta skrefið með því að búa til stutta og hraðskreiða hasarmynd úr þessari fjórðu mynd en það sem skemmir flæðið mest er áberandi skortur á alvöru plotti. Af öllum myndunum fjórum er þessi sú þynnsta og er þá ekki skrítið að maður missi áhugann á henni því lengur sem maður horfir á hana. Með beittara handriti hefðu þessir Svíar alveg getað rúllað þessu upp, en það sýnir líklegast bara að aðstandendur vilji fyrst og fremst græða á þessu í stað þess að búa til eitthvað sem á sér eilíft líf.
PS. Hryllilega er fyndið hvað Charles Dance er mikið að reyna að vera eins og Bill Nighy var.
(5/10)