Aardman Animations og Studio Canal hafa nú sent frá sér fyrstu opinberu stikluna í fullri lengd, auk plakats, fyrir stop-motion myndina Early Man, eða Frummaður, í lauslegri íslenskri þýðingu.
Kvikmyndinni er leikstýrt af Nick Park, höfundi Wallace and Gromit og Shaun the Sheep. Tíu ár eru síðan ákveðið var að gera myndina, en margir töldu að hér yrði á ferðinni framhaldsmynd af Wallace and Gromit. Það var ekki fyrr en árið 2015 sem tilkynnt var um að myndin héti Early Man og í fyrra, 2016, var sagt frá því að Óskarsverðlaunaleikarinn Eddie Redmayne (The Theory of Everything) myndi tala fyrir aðalpersónu myndarinnar, Dug.
Stiklan er rúmar tvær mínútur að lengd og þar sjáum við allskonar ævintýralega hluti, þar sem steinöldin og bronsöldin eigast við í sögulegum bardaga.
Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: Myndin gerist í upphafi mannkynssögunnar, þegar forsöguleg dýr fóru um Jörðina. Hugrakkur hellisbúi að nafni Dug og besti vinur hans Hognob, sameina ættflokka sína gegn hættulegum óvini, Lord Nooth ( Tom Hiddleston ) og Bronsaldarborg hans, til að bjarga hýbýlum sínum.
Early Man verður fyrsta kvikmynd Park í fullri lengd síðan hann gerði Wallace and Gromit: The Curse of the Were-Rabbit árið 2005. Frumsýningardagur hefur verið ákveðinn 26. Janúar árið 2018.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: