Eins og kvikmyndaáhugamenn vita hefur stafræn upptökutækni verið að hasla sér völl síðastliðin ár. Sumir ganga svo langt að spá því að árið 2015 verði nær allar myndir teknar upp stafrænt, en þó eru ekki allir tilbúnir til þess að skrifa upp á dauða filmunnar.
Þar má taka sem dæmi leikstjóra nýju Star-Wars myndarinnar, J.J. Abrams og tökumanninn Daniel Mindel, og hafa þeir félagar staðfest að Star Wars VII verði skotin á 35mm filmu.
Mindel hefur verið kvikmyndatökumaður í þrjá áratugi og hefur vanið sig á filmuna. Abrams hefur unnið margoft með Mindel og hafa þeir ávallt tekið kvikmyndir Abrams á filmu.
Síðustu tvær myndir, Attack of the Clones og Revenge of the Sith voru skotnar stafrænt og verður því forvitnilegt að sjá filmuna notaða á ný við þessa stórmynda-seríu.