Stjörnustríðsmyndin nýja, Star Wars: The Last Jedi, hefur rofið 60.000 manna múrinn í sýningum hér á Íslandi, en alls hafa 60.586 landsmenn séð myndina frá því að hún var frumsýnd þann 14. desember. Múrinn var rofinn á síðustu dögum því alls sáu 849 manns myndina yfir síðastliðna helgi. Myndin er í sjötta sæti listans yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins yfir helgina 19. – 21. janúar.
Star Wars: The Last Jedi er áttundi kaflinn í þessari stærstu kvikmyndaseríu allra tíma sem er að þessu sinni leikstýrður af Rian Johnson. Í myndinni heldur Rey á vit ævintýranna ásamt Luke Skywalker, Leiu prinsessu og hinum dyggu Poe og Finn þar sem þau eiga eftir að uppgötva leyndardóm kraftsins og fortíð sem var þeim hulin. Með helstu hlutverk fara Daisy Ridley, Oscar Isaac, Gwendoline Christie, John Boyega, Carrie Fisher, Adam Driver og Mark Hamill.
Framhaldsmyndin um breska bangsann Paddington heldur toppsæti listans aðra helgina í röð. Alls sáu tæplega 4.200 landsmenn Paddington 2 yfir helgina og hafa um 11.600 manns séð myndina í kvikmyndahúsum hér á landi frá því að hún var frumsýnd þann 12. janúar.
Í myndinni lendir bangsinn í mikilli klemmu þegar óprúttinn þjófur stelur fágætri bók sem hann ætlaði að kaupa til að gefa frænku sinni í afmælisgjöf. Þjófurinn lætur sig svo hverfa á dularfullan hátt en með þeim afleiðingum að lögreglan heldur að Paddington sé þjófurinn. Þangað til Paddington getur hreinsað af sér sakirnar er honum stungið í fangelsi. Þar eignast hann fljótlega marga góða vini sem eiga áreiðanlega eftir að hjálpa honum að hafa uppi á hinum rétta þjófi og endurheimta bókina góðu úr höndum hans.
Jumanji: Welcome to the Jungle er í öðru sæti listans en alls fóru 1.800 bíógestir á myndina yfir síðastliðna helgi. Nákvæmlega 25.321 manns hafa séð myndina frá frumsýningu. Í myndinni finna fjórir miðskólanemar gamlan tölvuleik og dragast inn í leikinn sem er með frumskógarþema, og breytast í þær persónur í leiknum sem þau vilja. Þau komast hinsvegar að því að þau eru ekki bara að spila leikinn – þau verða að lifa hann af.
Ný mynd tyllir sér í þriðja sæti listans, en það er kvikmyndin The Post sem skartar Tom Hanks og Meryl Streep í aðalhlutverkum. Rúmlega 2.000 manns hafa séð myndina hér á landi. Myndin gerist árið 1971 en á fyrri hluta þess árs komust blaðamenn dagblaðsins The Washington Post yfir ríkistrúnaðarskjöl sem síðan hafa verið kölluð „The Pentagon Papers“. Gögnin innihéldu m.a. viðamiklar upplýsingar um afskipti Bandaríkjastjórnar af innanríkismálum Víetnam allt frá árinu 1945 og átti þessi gagnaleki eftir að valda gríðarlegum skjálfta í æðsta stjórnkerfi Bandaríkjanna.