Star Wars loksins í Kína

Kínverjar fá nú loksins að sjá fyrstu Stjörnustríðsmyndina í bíó, um fjórum áratugum eftir að hún var frumsýnd í öðrum löndum.

Allar Star Wars myndirnar sex hafa verið teknar til sýninga á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Shanghai, þar af fyrstu þrjár myndirnar sem aldrei fyrr hafa verið sýndar í Kína. Engar áætlanir eru um frekari dreifingu í landinu.

star wars

Þegar fyrsta myndin, A New Hope, sem fjallar um ævintýri þeirra Loga Geimgengils, Hans Óla og Leiu prinsessu, í stjörnukerfi í órafjarlægð, var frumsýnd árið 1977, var Kína að stíga upp úr menningarbyltingunni svokölluðu og ekki byrjað að umbreyta efnahagslífinu eins og átti svo eftir að gerast á árunum á eftir.

Í frétt 9news.com, segir að fyrsta sýningin á myndinni hafi verið nær uppseld, og áhorfendur margir mætt í Star Wars bolum.

Í fréttinni segir einnig að Disney fyrirtækið, sem nú á Star Wars myndirnar, vonist til að sýningarnar á gömlu myndunum muni búa Kínverja undir sýningar á nýjustu myndinni, sem væntanleg er um næstu jól: Star Wars: The Force Awakens.