Star Wars frumsýnd – Stærsta frumsýning sögunnar!

Þann 17. desember verður Star Wars: The Force Awakens frumsýnd á Íslandi, en samkvæmt tilkynningu frá Sam bíóunum hefur það aldrei gerst í sögunni að ein kvikmynd hafi opnað í fleiri bíósölum, en alls verður hún sýnd í 26 sölum um land allt.

Nú þegar hafa selst rúmlega 12.000 miðar í forsölu, sem er Íslandsmet!

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

„Þann 17. desember rennur upp dagur sem kvikmyndaáhugafólk um allan heim bíður forvitið og spennt eftir, þ.e. frumsýningardagur sjöunda kafla Star Wars-sögunnar, The Force Awakens, sem gerist um 30 árum eftir atburðina í sjötta kaflanum, Return of the Jedi.

star wars mynd

Eins og allir vita sem fylgjast með kvikmyndum hafa aðstandendur myndarinnar séð til þess að mjög lítið hefur spurst út um atburðarás hennar og þótt stiklan úr henni, sem var frumsýnd um miðjan október [ …] sé mjög góð þá gefur hún samt sem áður nánast ekkert upp um söguna sjálfa annað en það sem vitað var fyrir, þ.e. að þessi sjöundi kafli gerist 30 árum eftir atburðina í sjötta kaflanum þegar hin myrku öfl hafa á ný látið til skarar skríða í baráttunni um völdin í alheiminum. Nýr foringi þessara afla er kominn fram og hefur svarið þess eið að ljúka því verki sem Svarthöfði hóf á sínum tíma, þ.e. að ná alheimsyfirráðum …“

Aðalhlutverk:
Daisy Ridley, John Boyega, Adam Driver, Harrison Ford, Oscar Isaac, Mark Hamill, Carrie Fisher, Simon Pegg og Domhnall Gleeson

Leikstjórn: J.J. Abrams

Sýningarstaðir:
Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Smárabíó, Laugarásbíó, Selfossbíó, Ísafjarðarbíó, Króksbíó og Bíóhöllin Akranesi

Aldurstakmark: 9 ÁRA

Fróðleiksmolar til gamans:

The Force Awakens verður frumsýnd á sama tíma um allan heim og er búist við að hún eigi eftir að slá aðsóknarmet seríunnar sem fyrsti kafli sögunnar, The Phantom Menace, á í dag. Bjartsýnustu menn eru meira að segja farnir að spá því að hún verði fyrsta mynd sögunnar sem hali inn meira en þrjá milljarða dollara í miðasölu. Við sjáum til, en það er sjálfsagt að hvetja þá sem vilja vera á meðal þeirra fyrstu til að sjá myndina og komast að leyndardómum hennar að tryggja sér miða í forsölu. Um leið hvetjum við þá sömu til að halda leyndinni við og ekki segja þeim sem sjá hana síðar of mikið!